Arsenal sækir Sevilla heim í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Skytturnar eru með þrjú stig í 2. sæti riðilsins.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur veðjað á Raya frekar en Aaron Ramsdale í síðustu leikjum liðsins. Og þrátt fyrir að Raya hafi fengið á sig klaufalegt mark gegn Chelsea í Lundúnaslag á laugardaginn stendur hann væntanlega milli stanganna gegn Sevilla í kvöld.
Arteta var spurður að því hvort pressan sem fylgir því að spila fyrir jafn stórt félag og Arsenal væri farin að hafa áhrif á Raya.
„Ég hef ekki tekið eftir því. Þetta er pressan sem er fylgifiskur þess að spila fyrir stór félög þar sem þú verður að vinna, verður að vera upp á þitt besta og ert með einhvern andandi ofan í hálsmálið á þér á hverjum degi,“ sagði Arteta um landa sinn. „Þetta eru vangavelturnar og fegurðin við leikinn. Það að þú hafir aðra kosti eykur bara umtalið.“
Ramsdale var ekki til taks gegn Chelsea á laugardaginn vegna fæðingu sonar síns. Hann ferðaðist hins vegar með liði Arsenal til Sevilla.
Leikur Sevilla og Arsenal hefst klukkan 19:00 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.