Innlent

Tvær til­kynningar vegna hópslags­mála og ein vegna líkams­á­rásar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla segir málið vera í rannsókn.
Lögregla segir málið vera í rannsókn. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust tvær tilkynningar um slagsmál í gærkvöldi eða nótt. 

Önnur tilkynningin varðaði hópslagsmál í póstnúmerinu 105 í Reykjavík en þegar lögreglu bar að hlupu nokkrir einstaklingar á brott. Einn var handtekinn og vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.

Hin tilkynningin varðaði slagsmál í póstnúmerinu 108. Í því tilviki var einn fluttur á bráðamóttöku til skoðunar en samkvæmt yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar er ekki vitað um meiðsl á viðkomandi. Einn var handtekinn og vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Lögreglu barst einnig tilkynning um líkamsárás í póstnúmerinu 112 og þá var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í póstnúmerinu 109 og í Hafnarfirði. 

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni grunaðir um akstur undir áhrifum en einnig barst tilkynning um umferðaróhapp þar sem bifreið hafði verið ekið á ljósastaur. Bifreiðin var tjónuð en meiðsl talin minniháttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×