Handbolti

Danir senda Þóri Her­geirs smá pillu: Ekki við hæfi að gera eins og Norð­menn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson ræðir við eftirlitsdómara í leik Noregs og Sviss á Evrópumóti kvenna í handknattleik.
Þórir Hergeirsson ræðir við eftirlitsdómara í leik Noregs og Sviss á Evrópumóti kvenna í handknattleik. Vísir/Getty

Danska handboltasambandið hefur gefið það út að það muni ekki hafa sömu reglu og norska handboltalandsliðið á komandi heimsmeistaramóti kvenna í handbolta.

Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson þjálfar norsku stelpurnar og hann setti þá reglu að leikmenn hans megi ekki gefa eiginhandaráritanir eftir leiki né láta taka myndir af sér með stuðningsmönnum norska liðsins.

Ástæðan fyrir þessu er ótti við að með þessu séu þær að koma sér í mikla smithættu og geti þar með náð sér í inflúensu, nóróveiru eða kórónuveiru.

Þórir sagði í samtali við Verdens Gang að Norðmenn hafi þurft að taka þessa ákvörðun sjálfir því þeir geti ekki beðið eftir öðrum til að taka á þessari óvissu fyrir þau.

Þórir fékk á sig mikla gagnrýni eftir þetta og var meðal annars sakaður um móðursýki af norskum fjölmiðlamanni.

Danska landsliðið spilar alla leiki sína í höllinni í Herning sem tekur tólf þúsund manns í sæti. Það er búist við fullri höll og miklum áhuga á danska liðinu.

„Við erum ekki að hugsa um að setja slíka reglu enda þykir okkur það ekki við hæfi. Eitthvað mjög neikvætt þarf að gerast í samfélaginu til þess að við förum þessa leið,“ sagði Morten Henriksen, framkvæmdastjóri danska sambandsins, við TV2.

„Ef hlutirnir halda áfram að vera eins og þeir eru núna þá get ég fullvissað ykkur um að við munum fá heilbrigða, áhugasama og viðkunnanlega handboltaleikmenn til að mæta á stuðningsmannasvæðið,“ sagði Morten.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×