Enski boltinn

Shearer og Owen hafa ekki talast við í fjögur ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alan Shearer og Michael Owen meðan allt lék í lyndi.
Alan Shearer og Michael Owen meðan allt lék í lyndi. getty/Graham Chadwick

Michael Owen hefur ekki rætt við Alan Shearer síðan þeir deildu opinberlega vegna ævisögu þess fyrrnefnda fyrir fjórum árum.

Shearer stýrði Newcastle United undir lok tímabilsins 2008-09 en mistókst að bjarga liðinu frá falli úr ensku úrvalsdeildinni. Owen var þá leikmaður Newcastle og fannst hann hafa verið gerður að blóraböggli vegna ófara liðsins.

Eftir að Newcastle féll segist Owen hafa komist að því Shearer hafi verið ósáttur við hann, fundist að hann væri ekki tilbúinn að spila og fórna sér fyrir Newcastle í fallbaráttunni því hann væri eingöngu að hugsa um næsta samning.

Þeir Owen og Shearer deildu svo fyrir opnum tjöldum eftir útgáfu ævisögu þess fyrrnefnda, Reboot - My Life, My Time. Síðan þá hafa þeir ekki talast við.

„Ég hef ekki talað við Alan Shearer síðan hann gagnrýndi bókina mína,“ sagði Owen við DAZN.

„Alan vinnur hjá BBC en ég hjá öðrum miðlum þannig að leiðir okkar liggja sjaldan saman. Ég myndi heilsa honum og taka í spaðann á honum en við höfum ekki talað saman síðan þá.“

Owen og Shearer léku saman hjá Newcastle tímabilið 2005-06 og þá voru þeir samherjar í enska landsliðinu á árunum 1998-2000. Þeir léku meðal annars saman í framlínu Englands á HM 1998 og EM 2000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×