Fótbolti

„Leyfum stuðnings­mönnunum að dreyma“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ange Postecoglou reynir að halda sjálfum sér og leikmönnum á jörðinni en leyfir stuðningsmönnum að láta sér dreyma.
Ange Postecoglou reynir að halda sjálfum sér og leikmönnum á jörðinni en leyfir stuðningsmönnum að láta sér dreyma. Matthew Ashton - AMA/Getty Images

Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, reynir eftir bestu getu að halda sjálfum sér og leikmönnum sínum á jörðinni þrátt fyrir að liðið sé með fimm stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Hann vill þó að stuðningsmenn liðsins láti sér dreyma um titilinn.

Tottenham vann góðan 1-2 sigur gegn Crystal Palace í gærkvöldi og liðið er því með 26 stig af 30 mögulegum eftir fyrstu tíu leiki tímabilsins. Öll önnur lið deildarinnar eiga eftir að spila í tíundu umferð, en nú þegar er ljóst að Tottenham verður á toppnum að henni lokinni með að minnsta kosti tveggja stiga forskot.

Liðið er nú með fimm stiga forskot á toppnum, sem er mesta forskot sem Tottenham hefur verið með síðan félagið var með átta stiga forskot á lokadegi tímabilsins 1960-1961 þegar Tottenham varð seinast enskur meistari.

Stuðningsmenn Tottenham eru því eðlilega spenntir fyrir því sem koma skal og Postecoglou ætlar sér ekki að reyna að draga úr væntingum þeirra.

„Leyfum stuðningsmönnunum að dreyma,“ sagði Ástralinn eftir sigur Tottenham í gær. „Það er það sem það að vera stuðningsmaður snýst um.“

Hann ætlar sér þó ekki að fara fram úr sér og vill að leikmenn liðsins haldi sér á jörðinni.

„Það mikilvægasta er að við erum að veita stuðningsmönnum okkar gleði og von. Knattspyrnufélög eru til þess gerð. Draumar endast alveg þar til einhver vekur þig, þannig að við sjáum bara til,“ sagði þjálfarinn að lokum er hann var spurður út í markmið Tottenham á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×