Erlent

Hundruð réðust inn á flug­­völl í Rúss­landi í leit að Ísraelum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Hópur fólks hrópaði, kallaði og viðhafði andgyðingleg ummæli í garð farþeganna.
Hópur fólks hrópaði, kallaði og viðhafði andgyðingleg ummæli í garð farþeganna. AP/Twitter

Hópur fólks í héraðinu Dagestan í Rússlandi réðst inn á flugvöll í leit að ísraelskum flóttamönnum. Flugvél frá Tel Aviv, höfuðborg Ísraels, lenti á flugvellinum í kvöld.

Myndbönd sýna hundruð ungra karlmanna, sumir með fána Palestínu á lofti, ryðjast inn í byggingu Makhachkala flugvallarins. Þá hafa einnig borist fregnir af því að íbúar hafi leitað af ísraelskum getum á hótelum í dag, en Guardian greinir frá því að í héraðinu búi aðallega múslimar.

Starfsmenn flugfélagsins sáust ýta farþegum aftur inn í flugvél og á flugstjórinn að hafa tilkynnt farþegum að æstur múgur væri fyrir utan vélina. Hann sagði möguleika á að ráðist yrði á farþegana.

Talið er að óeirðirnar hafi verið skipulagðar á samfélagsmiðlum og náð hápunkti þegar tilkynnt var að flugvél væri að koma frá Tel Aviv með flóttamönnum frá Ísrael. Sumir óeirðaseggjanna héldu á skiltum sem á stóð: „Við erum á móti flóttamönnum sem eru gyðingar.“

Rússnesk yfirvöld greindu frá því í kvöld að tekist hafi að ná stjórn á ástandinu og að einhverjir hafi verið handteknir. Þá greina staðbundin stjórnvöld frá því að þau hafi þurft að flytja um 800 fjölskyldur gyðinga frá héraðinu Dagestan. Stjórnvöld í Ísrael fordæma athæfið og biðja rússnesk yfirvöld að vernda ísraelska ríkisborgara og gyðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×