Enski boltinn

Neville og Carra rifust um Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Neville og Jamie Carragher hafa sterkar skoðanir á ástandinu hjá Manchester United.
Gary Neville og Jamie Carragher hafa sterkar skoðanir á ástandinu hjá Manchester United. Getty/John Walton

Gary Neville og Jamie Carragher voru ekki sammála um stefnu félagsins og ástæðu vandræða Manchester United eftir 3-0 tap liðsins í nágrannaslagnum við Manchester City á Old Trafford í gær.

Neville er fyrrum leikmaður Manchester United en Carragher lék allan sinn feril með Liverpool. Neville var mikið niðri fyrir þegar hann ræddi stöðu mála á bak við tjöldin hjá United.

Það má alltaf búast við góðu sjónvarpi þegar þeir félagar fara að kýta fyrir framan sjónvarpsvélarnar og það var full ástæða til að fylgjast með þeim á Sky Sports í gær.

Á meðan Carragher vildi kenna leikstíl United um slakt gengi og þar með knattspyrnustjóranum var það slæmt vinnuumhverfi sem Neville skrifaði vandræði félagsins fyrst og fremst á.

Manchester United tapaði ekki bara með þremur mörkum á heimavelli í Manchester slagnum heldur var liðið algjörlega yfirspilað í leiknum.

Carragher segir að liðið sé það eina af þeim stóru í ensku úrvalsdeildinni sem setji leikina upp eins og litla liðið. Pakki í vörn, spili ekki út úr vörninni og treysti á skyndisóknir.

Neville segir að vinnuumhverfi knattspyrnustjórans og teymisins ekki boðlegt. Nú sé að koma inn nýr maður, Sir Jim Ratcliffe, sem ætlar að taka yfir alla stjórn á fótboltamálum félagsins. Allir starfsmenn félagsins mæti því í vinnuna með það hangandi yfir sér að þeir séu líklega að missa vinnuna.

„Fréttirnar er um að það sé maður að koma inn sem ætli að hreinsa út alla fótboltadeild félagsins. Getur þú ímyndað þér hvað sé í gangi innan þessar fótboltadeildar og í kringum Erik ten Hag. Þetta er eitrað andrúmsloft og neikvæðni alls ráðandi. Allir eru að fara að missa vinnuna,“ sagði Gary Neville meðal annars.

Hér fyrir neðan má sjá þá Neville og Carragher í ham í myndveri Sky Sports eftir leikinn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×