Enski boltinn

Þóttist ekkert skilja sönginn í stúkunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland fagnar marki á móti Manchester United á Old Trafford í gær.
Erling Haaland fagnar marki á móti Manchester United á Old Trafford í gær. AP/Dave Thompson

Norski framherjinn Erling Haaland fór illa með Manchester United í nágrannaslagnum í gær en hann skoraði tvö mörk og lagði upp það þriðja í 3-0 sigri Manchester City á Old Trafford.

Alfie, faðir Erling, meiddist illa á hné á þessum sama velli eftir ruddalega tæklingu Roy Keane í nágrannaslag United og City í apríl 2001.

Keane viðurkenndi í ævisögu sinni að hann hafði þar ætlað að hefna fyrir það þegar hann sleit krossband eftir tæklingu frá Haaland fjórum árum fyrr.

Þegar Haaland var að undirbúa sig að taka vítaspyrnu í leiknum í gær þá fóru stuðningsmenn United að syngja: „Keano“ og „Haaland, Hvernig hefur pabbi þinn það?“.

Norðmaðurinn þóttist ekkert vita um hvað var í gangi en ESPN segir frá.

„Fólk var að kalla á mig Keano,“ sagði Haaland við breska ríkisútvarpið. „Ég veit ekki af hverju en svona er þetta bara. Þetta var gott fagn og góður leikur,“ sagði Haaland.

Hann er nú kominn með ellefu deildarmörk eða jafnmörg mörk og allt lið Manchester United hefur skorað í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×