Innlent

Tveir stórir skjálftar norður af Grindavík

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Jarðskjálftahrina er yfirstandandi norður af Grindavík. Í morgun mældust tveir í hrinunni yfir þremur að stærð.
Jarðskjálftahrina er yfirstandandi norður af Grindavík. Í morgun mældust tveir í hrinunni yfir þremur að stærð. Vísir/Vilhelm

Laust fyrir klukkan níu í morgun reið yfir skjálfti sem mældist 3,1 að stærð um 3,6 km norður af Grindavík en litlu seinna reið annar og stærri yfir á sama stað en sá mældist 3,4 að stærð.

Fleiri en tuttugu skjálftar sem mælst hafa yfir tveimur að stærð hafa riðið yfir á þessu svæði frá miðnætti og er hrinan enn yfirstandandi norðan við Grindavík.

Á Veðurstofu Íslands segir að meirihluti umræddrar skjálftavirkni sé á um 2-4 km dýpi. Laust eftir hádegi í gær reið yfir stærðarinnar skjálfti á svæðinu, en sá mældist 4,5 að stærð og fundu fjölmargir fyrir honum.

Landris, nokkuð ört, hefur mælst við Svartsengi og Þorbjörn en Veðurstofan bíður enn nýrra gervitunglagagna.


Tengdar fréttir

Skjálfti upp á 4,5 fannst víða

Fólk á suðvesturhorninu fann margt hvert vel fyrir jarðskjálfta nærri Grindavík um klukkan nítján mínútur  yfir tólf. Íbúar á Akranesi voru á meðal þeirra sem fundu fyrir skjálftanum sem reyndist 4,5 að stærð.

Lang­varandi land­ris gæti þýtt kröftugra eld­gos

Eldfjallafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands segir ört landris við Svartsengi og Þorbjörn ekki góðar fréttir í ljósi staðsetningar. Langvarandi landris sé til marks um að töluvert hafi safnast af kviku á svæðinu og því ætti eldgos þar að vera aðeins kraftmeira en síðustu tvö. Hann segir farsælla að viðbragðsaðilar geri í undirbúningi sínum ráð fyrir slæmri útkomu til að þeir séu betur í stakk búnir að leysa málin skjótt og örugglega.

Á­fram­haldandi þensla við Þor­björn

Land heldur áfram að rísa umhverfis Þorbjörn og Svartsengi. Þetta staðfesta nýjustu gögn Veðustofunnar. Von er á nýjum gervihnattamyndum síðar í dag sem þó verður líklega ekki hægt að lesa úr fyrr en á morgun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×