United keypti Antony frá Ajax í fyrra fyrir rúmlega 82 milljónir punda. Hann er næstdýrasti leikmaður í sögu félagsins.
Brassinn hefur ekki gert mikið til að réttlæta verðmiðann en hann hefur aðeins skorað átta mörk í 53 leikjum fyrir United og ekki átt fast sæti í byrjunarliði Rauðu djöflanna.
Phil McNulty, blaðamaður BBC, gagnrýndi kaupin á Antony og sagði að Erik ten Hag, knattspyrnustjóri United, væri ábyrgur fyrir þeim en ekki eigendur félagsins, Glazer-fjölskyldan umdeilda. Antony lék undir stjórn Ten Hags hjá Ajax.
Neville var ekki sammála McNulty, tók til máls á Twitter og kenndi Glazerunum um kaupin á Antony.
„Ég skil hvað þú ert að segja en ef krakkarnir biðja endalaust um eitthvað og foreldrarnir halda áfram að borga hverjum kennirðu um?“ skrifaði Neville.
„Setjum þetta í samhengi. Við töpuðum fyrir Brighton og Brentford og félagið var í óðagotsástandi eins og venjulega og sagði já við kaupunum á Casemiro og Antony. Algjöra óðagotið og skortur á leiðtogahæfni er allt Glazerunum að kenna! Þeir hafa gert þetta í áratug.“
Antony kom inn á sem varamaður undir lok leiks United og Manchester City um helgina og gerði ekkert annað en sparka í Belgann Jérémy Doku. Neville sagði að Antony hefði verið stálheppinn að sleppa við rautt spjald.
United er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fimmtán stig eftir tíu leiki. Næsti leikur liðsins er gegn Fulham á Craven Cottage á laugardaginn.