Fótbolti

Biðlar til stuðningsmanna að hafa trú á verkefninu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mauricio Pochettino biður stuðningsmenn Chelsea um að trúa.
Mauricio Pochettino biður stuðningsmenn Chelsea um að trúa. Alex Broadway/Getty Images

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, biðlar til stuðningsfólks liðsins að hafa trú á verkefninu sem er í gangi hjá liðinu.

Það er ekki hægt að segja að byrjun Chelsea á tímabilinu hafi verið góð og liðið hefur aðeins unnið fimm af fystu tólf leikjum sínum. Baulað var á leikmenn og þjálfarateymi liðsins eftir 2-0 tap á heimavelli gegn Brentford síðastliðinn sunnudag og Chelsea situr í ellefta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins tólf stig.

„Stuðningsmennirnir verða að standa með okkur. Ég veit að það er erfitt að sitja á tilfinningunum sínum og það er eðlilegt,“ sagði Pochettino.

„Auðvitað vilja þeir sjá okkur vinna. Það er eðlilegt að þeir séu pirraðir og sýni tilfinningar, en skilaboðin frá mér eru að þeir þurfa að trúa og treysta á okkur. Þetta verkefni snýst um það.“

Tap Chelsea gegn Brentford síðastliðinn sunnudag var þriðja tap liðsins á heimavelli í röð og liðið er nú án sigurs á heimavelli í fjórum leikjum í röð.

Chelsea fær þó tækifæri til að koma sér aftur á sigurbraut annað kvöld er liðið tekur á móti Arnóri Sigurðssyni og félögum hans í B-deildarliði Blackburn Rovers í enska deildarbikarnum. 

Gera má ráð fyrir því að sigur geti skipt sköpum fyrir Chelsea, enda á liðið erfitt leikjaprógram fyrir höndum í nóvembermánuði. Chelsea heimsækir Tottenham, topplið ensku úrvalsdeildarinnar og gamla félag þjálfarans, næstkomandi mánudag áður en liðið mætir Manchester City, Newcastle Brighton og loks Manchester United þann 6. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×