Enski boltinn

Allt í steik hjá United sem tapaði stórt á heima­velli

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sofyan Amrabat og Harry Maguire fremur ráðvilltir á Old Trafford í kvöld.
Sofyan Amrabat og Harry Maguire fremur ráðvilltir á Old Trafford í kvöld. Vísir/Getty

Manchester United er úr leik í enska deildabikarnum eftir slæmt 3-0 tap gegn Newcastle á heimavelli í kvöld. Þetta er annað þriggja marka tap United á heimavelli í röð.

Manchester United mætti til leiks gegn Newcastle í dag eftir 3-0 tap á heimavelli gegn Manchester City um helgina. Gengi United undanfarið hefur verið æði misjafnt. Liðið hafði unnið þrjá leiki í röð fyrir leikinn gegn City en tapað tveimur leikjum í röð þar á undan. Liðið er ríkjandi deildabikarmeistari og sterkt byrjunarlið Erik Ten Hag benti til þess að liðið ætlaði sér að halda titlinum á Old Trafford.

Kvöldið var erfitt fyrir stuðningsmenn United á Old Trafford. Miguel Almiron kom Newcastle yfir á 28. mínútu og Lewis Hall tvöfaldaði forystuna átta mínútum síðar.

Joe Willock innsiglaði síðan sigur Newcastle með marki á 60. mínútu og annað 3-0 tap United á heimavelli í röð því staðreynd.

Það má búast við erfiðu kvöldi og næstu dögum hjá Erik Ten Hag knattspyrnustjóra Manchester United. Gagnrýni á hann hefur aukist undanfarið og þá hafa einnig borist fréttir af dvínandi trú leikmanna liðsins á verkefninu.

Eddie Howe og lærisveinar hans yfirgefa Manchester hins vegar sáttir og mátti heyra stuðningsmenn Newcastle syngja allan síðari hálfleikinn á Old Trafford í kvöld á meðan stúkur stuðningsmanna heimaliðsins tæmdust hægt og rólega eftir því sem lokaflautið nálgaðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×