Enski boltinn

„Verðum að biðja stuðnings­mennina af­sökunar“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Erik Ten Hag gengur af velli eftir leik gærkvöldsins.
Erik Ten Hag gengur af velli eftir leik gærkvöldsins. Vísir/Getty

Erik Ten Hag bað stuðningsmenn Manchester United afsökunar eftir 3-0 tap liðsins gegn Newcastle í 16-liða úrslitum deildabikarsins í gær. Þetta var annað þriggja marka tap liðsins á heimavelli í röð.

Manchester United féll í gærkvöldi úr keppni í deildabikarnum eftir 3-0 tap gegn Newcastle á heimavelli sínum Old Trafford. Lið United lenti 2-0 undir í fyrri hálfleik og átti ekki gott kvöld.

„Við vitum að þetta er ekki nógu gott. Við þurfum að taka ábyrgð á því. Ég þarf að taka ábyrgð á því. Ég þarf að segja afsakið við stuðningsmennina því þetta var fyrir neðan okkar staðla og við verðum að gera þetta betur,“ sagði Ten Hag í viðtali við Skysports að leik loknum í gær.

Þetta er í fyrsta skiptið síðan 1962 sem Manchester United tapar tveimur heimaleikjum í röð með þremur mörkum eða meira.

„Við þurfum að koma til baka og gera það fljótt. Á laugardag er næsti leikur og við þurfum að bæta okkar leik. Þetta er ekki nógu gott,“ bætti Ten Hag við en United mætir Fulham á laugardaginn kemur.

Ten Hag segir að nægileg gæði búi í liði United.

„Leikmennirnir munu stíga upp. Þeir standa saman. Við sáum að þeir reyndu en við vitum að þetta er ekki nógu gott. Ég er ábyrgur fyrir þessu og við verðum að gera þetta saman.“

„Til að ná upp sjálfstrausti þá þarftu að spila og svo færðu sjálfstraust þegar þú nærð í úrslit. Það er einunigs hægt þegar þú fylgir reglunum, vinnur bardagana og kemur með baráttuna. Þetta þurfum við að gera sem lið. Eina leiðin er að standa saman en þú þarft að sýna aga, allir þurfa að vinna saman og taka ábyrgð.“

Hann sagði að liðið myndi sofa á úrslitunum og skoða stöðuna.

„Síðan veljum við liðið og taktíkina. Mikilvægast er að ná hugarfarinu réttu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×