Enski boltinn

United vill fá fram­herja í janúar og horfir til Toneys

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ivan Toney situr nú af sér bann vegna brota á veðmálareglum enska knattspyrnusambandsins.
Ivan Toney situr nú af sér bann vegna brota á veðmálareglum enska knattspyrnusambandsins. getty/Alex Davidson

Manchester United vill fá framherja í janúar til að létta undir með hinum tvítuga Rasmus Højlund. Ivan Toney er meðal þeirra sem er í sigti United.

Højlund kom til United frá Atalanta fyrir tímabilið. Hann hefur skorað þrjú mörk í Meistaradeild Evrópu en er ekki enn kominn á blað í ensku úrvalsdeildinni. Aðrir framherjar United eru einnig kaldir og liðið hefur aðeins skorað ellefu mörk í tíu deildarleikjum í vetur.

Til að kippa því í liðinn og veita Højlund aðeins meiri stuðning hefur United hug á að fá reyndari framherja í janúarglugganum.

United hefur til að mynda áhuga á að fá Ivan Toney, framherja Brentford. Hann er sem stendur í banni vegna brota á veðmálareglum enska knattspyrnusambandsins og hefur ekki spilað frá því síðasta vor. Toney, sem er 27 ára, hefur skorað 68 mörk í 124 leikjum fyrir Brentford síðan hann kom til félagsins frá Peterborough United fyrir þremur árum.

United er einnig með Mehdi Taremi, íranskan framherja Porto, í sigtinu og þá hefur Victor Osimhen hjá Napoli verið orðaður við Manchester-félagið.

United hefur tapað átta af fyrstu fimmtán leikjum sínum í vetur og hefur ekki byrjað tímabil verr í rúm sextíu ár.

Næsti leikur United er gegn Fulham á Craven Cottage í hádeginu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×