Erlent

Ein­stakur demantur gæti selst á sjö milljarða

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Það væri ekki nóg að vinna í íslenska lottóinu til að geta keypt þennan.
Það væri ekki nóg að vinna í íslenska lottóinu til að geta keypt þennan. EPA-EFE/MARTIAL TREZZINI

Ótrúlega sjaldgæfur demantur gæti selst fyrir fimmtíu milljónir bandaríkjadala, eða tæpa sjö milljarða króna, á uppboði í Genf í Sviss á þriðjudag.

Demanturinn ber nafnið „Bleu Royal“ og er 17,6 karöt. Hann er einn stærsti sinnar tegundar og sagður vera úr einstöku hráefni.

„Það sem gerir Bleu Royal svona sjaldgæfan er efnið og stærðin. Þetta er einn stærsti demantur af þessari tegund sem hefur fundist. Liturinn á honum er mjög djúpur og demanturinn er eins heillegur og hugsast getur,“ segir Rahul Kadakia, sem sér um uppboð á skartgripum hjá uppboðshúsinu Christie, við CNN.

Árið 2016 seldist sjaldgæfur blár demantur, sem ber nafnið „Oppenheimer Blue“ á 57 milljónir dollara. Vonir eru bundnar við að demanturinn slái fyrra met, og verði þá einn dýrasti demantur sem seldur hefur verið.

Fyrir þá sem ekki hafa efni á demantinum kemur annað til greina: perlufesti sem Audrey Hepburn var með í lokasenu myndarinnar „Roman Holiday“ árið 1953. Verðmiðinn á því er ekki nema þrjár til fjórar milljónir króna. Á sama uppboði er einnig hægt að freista þess að kaupa Rolex-úr sem Marlon Brando bar í myndinni „Apocalypse Now“.

Fagurblár og skorinn úr góðu hráefni.EPA-EFE/MARTIAL TREZZINI




Fleiri fréttir

Sjá meira


×