Enski boltinn

„Það eina sem var vand­ræða­legt og smánar­legt var hegðun Arteta“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikel Arteta lét gamminn geysa um dómgæsluna eftir tap Arsenal fyrir Newcastle United.
Mikel Arteta lét gamminn geysa um dómgæsluna eftir tap Arsenal fyrir Newcastle United. getty/James Gill

Michael Owen, einn markahæsti leikmaður í sögu enska landsliðsins, finnst Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, hafa gengið alltof langt í gagnrýni sinni á dómara eftir tapið fyrir Newcastle United.

Arsenal tapaði sínum fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Newcastle, 1-0, á laugardaginn. Anthony Gordon skoraði eina mark leiksins eftir rúman klukkutíma. Það var dæmt gilt eftir langa myndbandsskoðun.

Eftir leikinn gagnrýndi Arteta dómgæsluna harðlega og sagði hana til skammar og lýsti líðan sinni í leikslok eins og hann væri veikur.

Arsenal tók undir gagnrýni Artetas í yfirlýsingu í gær og óskaði eftir betri dómgæslu í ensku úrvalsdeildinni. Leikmenn, þjálfarar og stuðningsmenn ættu það skilið.

Owen tók til máls á Twitter/X í gær og gagnrýndi Arteta og sagði hann hafa farið langt yfir strikið.

„Leikur Arsenal og Newcastle í gær [í fyrradag] var frábær skemmtun. Tvö lið sem lögðu allt í sölurnar,“ skrifaði Owen.

„Það eina (hans orð) sem var vandræðalegt og smánarlegt var hegðun Artetas. Algengur atburður sem skaðar leikinn meira en nokkur röng ákvörðun. Að gefa út yfirlýsingu til að væla yfir dómgæslu er glatað og fyrir félag á borð við Arsenal, algjörlega klassalaust.“

Næsti leikur Arsenal er gegn Sevilla á heimavelli í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn. Á laugardaginn mætir Arsenal svo Burnley í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×