Lífið

Barnastjarna úr My Sister‘s Keeper látin

Atli Ísleifsson skrifar
Evan Ellingson á viðburði árið 2009.
Evan Ellingson á viðburði árið 2009. Getty

Bandaríski leikarinn Evan Ellingson, sem gerði garðinn frægan sem leikari í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta á sínum yngri árum, er látinn. Hann varð 35 ára gamall.

TMZ greinir frá því að Ellingson hafi látist á meðferðarheimili í San Bernardino-sýslu í Kaliforníu, en ekki er talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.

Ellingson er einna þekktastur fyrir að hafa farið með hlutverk táningssonar persónu Cameron Diaz í myndinni My Sister‘s Keeper frá árinu 2009. Þá vakti hann einnig athygli fyrir hlutverk sitt sem Kyle Harmon í þáttunum CSI: Miami, en hann birtist þar í átján þáttum á þriggja ára tímabili. Hann hafði þó ekki leikið síðasta áratuginn eða svo.

Faðir Ellingson, Michael Ellington, segir í samtali við TMZ að Evan hafi áður glímt við fíkniefnadjöfulinn en að vel hafi gengið að undanförnu. Andlátið nú sé því fjölskyldunni sérstaklega mikið áfall.

Evan Ellingson hóf leiklistarferil sinn þrettán ára gamall í sjónvarpskvikmynd og sem aukaleikari í sápuóperunni General Hospital. Síðar átti hann eftir að fara með hlutverk í sjónvarpsþáttum á borð við Titus, That Was Then, Mad TV, Complete Savages, Bones, 24 og fleiri þáttum. Þá birtist hann í kvikmyndunum Walk the Talk, Letters from Iwo Jima, The Bondage, Confession, Rules of the Game, Time Changer og The Gristle.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×