Þrátt fyrir að svæðið hafi ekki verið formlega opnað eru margir sem iðka margskonar íþróttir í Hlíðarfjalli allan ársins hring. Í tilkynningu á Facebooksíðu Hlíðarfjalls segir að efra svæði fjallsins sé sérlega varhugavert.
„Veikt kristallalag hefur grafist, og gefur snjóþekjan eftir við lítið álag. Nýr vindpakkaður snjór er á svæðinu og þrjú flóð hafa fallið náttúrulega þennan sólarhring. Sól og afbragðsveður er á svæðinu í dag og líklega margir sem hugsa sér hreyfings. Því er full ástæða til viðvörunar,“ segir í tilkynningunni.
Þá er tekið fram að vandamálið sé ekki aðeins bundið við Hlíðarfjall heldur sé ástæða til að fara varlega í öllum snjóþungum bratta.
Snjóflóða- og ofanflóðasérfræðingar meta stöðuna áfram.