Erlent

Biden ekki sam­mála Netanyahu um yfir­töku Ísraels­manna á Gasa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kona heldur á hvítum fána er hún og aðrir freista þess að komast framhjá hermönnum Ísraels á leið úr Gasaborg og suður eftir.
Kona heldur á hvítum fána er hún og aðrir freista þess að komast framhjá hermönnum Ísraels á leið úr Gasaborg og suður eftir. AP/Mohammed Dahman

Joe Biden Bandaríkjaforseti styður ekki yfirtöku Ísraelsmanna á Gasa, eins og Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur gefið til kynna að muni gerast að átökum loknum.

Þetta kom fram í máli John Kirby, talsmanns Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, á blaðamannafundi í gær. 

Netanyahu sagði í samtali við sjónvarpsstöðina ABC að líklega myndu Ísraelsmenn þurfa að taka yfir öryggisgæslu á Gasa að átökum loknum; menn hefðu séð hvað gerðist annars. 

„Endurhernám hersveita Ísrael er ekki hið rétta í stöðunni,“ sagði Kirby. „Ísrael og Bandaríkin eru vinir og við þurfum ekki að vera sammála um hvert einsta orð,“ bætti hann við. „Netanyahu og Biden eru ekki alltaf á nákvæmlega sama stað varðandi öll málefni.“

Kirby sagði viðræður þurfa að eiga sér stað um framtíð Gasa að loknum átökum, þar á meðal stjórn svæðisins. 

Ráðamenn í Ísrael segja herferð sína gegn Hamas munu taka nokkurn tíma og hafa gengist við því að hafa ekki skýra sýn á það hvað þeir sjá fyrir sér með framhaldið.

Varnarmálaráðherrann hefur gefið út að hann sjái ekki eiginlegt hernám fyrir sér en sagði að líklega myndi Ísraelsher standa í skærum við einstaka bardagahópa um langt skeið.

„Það eru nokkrir kostir í stöðunni hvað varðar „daginn eftir Hamas“,“ sagði Ophir Falk, einn ráðgjafa Netanyahu. „Allar áætlanirnar eiga það sameiginlegt að það verða engin Hamas-samtök, að það verður enginn hernaður á Gasa og að það verður engin öfgahyggja á Gasa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×