Erlent

G7-ríkin kalla eftir mannúðarhléi en Blinken úti­lokar vopna­hlé

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Utanríkisráðherrar G7 funduðu í Tókýó í morgun.
Utanríkisráðherrar G7 funduðu í Tókýó í morgun. AP/Jonathan Ernst

Utanríkisráðherrar G7-ríkjanna hafa sameinast um yfirlýsingu þar sem kallað er eftir mannúðarhléi á átökum milli Ísraela og Hamas til að greiða fyrir neyðaraðstoð til íbúa.

Ráðherrarnir ítrekuðu fordæmingu sína á árásum Hamas 7. október og stuðning þeirra við rétt Ísraels til að verja sig en lögðu einnig áherslu á nauðsyn þess að fara að alþjóðlegum lögum.

Þá gagnrýndu þeir ofbeldi landtökufólks á Vesturbakkanum gegn Palestínumönnum, sögðu það óásættanlegt, grafa undan öryggi á svæðinu og ógna vonum um varanlegan frið.

Yoko Kamikawa, utanríkisráðherra Japan, sagði að loknum fundi í Tókýó að tafarlausra aðgerða væri þörf til að mæta því ástandi sem hefði skapast á Gasa síðustu daga og vikur.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði vopnahlé hins vegar ekki inni í myndinni; Hamas-samtökin  hefðu enn yfir 200 manns í gíslingu og hefðu hótað ítrekuðum endurtekningum á 7. október.

Það væri afstaða Bandaríkjanna til framtíðarhorfa á Gasa að það mætti ekki neyða Palestínumenn þaðan, ekki núna og ekki í framtíðinni. Gasa ætti ekki að verða miðstöð fyrir hryðjuverkastarfsemi né væri rétt að hernema svæðið á ný.

Þá ætti ekki að umkringja eða hindra för fólks um svæðið né minnka það.

Framtíðarstjórn Gasa yrði að vera á höndum stjórnar leidda af Palestínumönnum og miða að því að svara vilja Palestínumanna. Þá þyrfti að sameina Gasa og Vesturbakkann undir umræddri stjórn og vinna að endurreisn innviða á Gasa.

Blinken sagði Bandaríkjamenn sjá fyrir sér Ísraelsmenn og Palestínumenn lifa saman í friði, í eigin ríkjum.

Utanríkisráðherrann sagði Gasa ekki mega falla aftur undir stjórn Hamas né ættu Ísraelar að hernema svæðið á ný. Viðbúið væri hins vegar að grípa þyrfti til einhverra tímabundinna ráðstafana að átökum loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×