Innlent

Sá stærsti 5,0 að stærð

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Margir skjálfta næturinnar hafa átt upptök sín skammt frá Grindavík.
Margir skjálfta næturinnar hafa átt upptök sín skammt frá Grindavík. Vísir/Egill

Fjöldi kröftugra jarðskjálfta með upptök á Reykjanesskaga hefur riðið yfir nú eftir miðnætti í kvöld. Klukkan 01:24 reið yfir skjálfti sem mældist 4,7 að stærð samkvæmt Veðurstofunni. Sá átti upptök sín um þrjá kílómetra norður af Grindavík, en fjöldi skjálfta hefur mælst við Grindavík í nótt. 

Í kjölfarið mældust þrír skjálftar yfir 3 að stærð. Þeir voru á bilinu 3,4 til 4,1 samkvæmt gögnum Veðurstofunnar, sem þó eru óyfirfarin. 

Mikill hristingur í nótt

Stærsti jarðskjálfti næturinnar, 5,0 að stærð, reið yfir klukkan 00:46 í nótt. Sá átti upptök sín um 4,6 kílómetra norðnorðvestur af Grindavík og mældist á þriggja kílómetra dýpi.

Upplýsingar um skjálftann eru fengnar úr töflu Veðurstofunnar yfir óyfirfarnar niðurstöður jarðskjálftamælinga. Samkvæmt íbúum í Grindavík sem fréttastofa hefur verið í sambandi við er um einn alöflugasta skjálfta sem fundist hefur á svæðinu í langan tíma að ræða.

Í kjölfar skjálftans hafa fimm skjálftar mælst þrír að stærð eða stærri. Flestir áttu upptök sín á svipuðum slóðum og mældust frá þremur upp í 3,6 að stærð.

Stórir skjálftar létu á sér kræla um miðnætti

Rétt upp úr miðnætti fannst kröftugur skjálfti víða um suðvesturhorn landsins um tvær mínútur yfir miðnætti. Samkvæmt óyfirförnum gögnum Veðurstofunnar var hann 3,6 að stærð.

Samkvæmt sömu gögnum átti hann upptök sín um fimm kílómetra norðnorðaustur af Grindavík, á 5,4 kílómetra dýpi. Í kjölfarið hafa nokkrir minni skjálftar mælst. Sjö þeirra mældust einn að stærð eða stærri, þar af tveir sem mældust 2,4 og 2,8. 

Í kjölfarið hafa mælst fleiri stórir skjálftar, en samkvæmt óyfirförnum niðurstöðum Veðurstofunnar reið skjálfti af stærðinni 3,9 yfir um fimm kílómetra vestsuðvestur af Fagradalsfjalli um korter yfir miðnætti. Sá mældist á sjö kílómetra dýpi. 

Mælingar Veðurstofunnar sýna enn stærri skjálfta, 4,2 að stærð, um mínútu áður, rúmlega þrjá kílómetra norður af Grindavík. Samkvæmt töflu Veðurstofunnar er mæling þess skjálfta þó talsvert óáreiðanlegri en hinna. 

Skjálftarnir hafa fundist víða, en samkvæmt ábendingum frá lesendum Vísis fannst skjálftinn alla leið upp í Borgarnes. 

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 01:37.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×