Um­fjöllun og við­tal: Grinda­vík - Þór Þ. 93-90 | Skjálftarnir trufluðu ekki heima­menn sem lögðu topp­liðið

Smári Jökull Jónsson skrifar
391747391_10159205866317447_1318027890980667576_n
vísir/anton

Grindavík vann sigur á Þór frá Þorlákshöfn í háspennuleik í Grindavík í kvöld. Heimamenn voru yfir nær allan leikinn en spennan undir lokin var mikil.

Grindavík komst mest sextán stigum yfir í fyrri hálfleik en fínn þriðji leikhluti Þórsara hélt þeim inni í leiknum. Grindavík leiddi allan seinni hálfleikinn en Þórsarar náðu þó áhlaupum inn á milli og tókst að jafna og komast yfir í lokafjórðungnum.

Á síðustu mínútunum voru heimamenn sterkari. DeAndre Kane spilaði vel í lokafjórðungnum eftir að hafa haft fremur hægt um sig. 

Þór fékk tækifærið undir lokin til að jafna eða tryggja sér sigurinn en Kristófer Breki náði að stela boltanum þegar Þórsarar voru að byggja upp sókn og koma boltanum á Dedrick Basile sem kom sér á vítalínuna. Hann setti niður annað vítið en tíminn var of naumur fyrir Þór til að jafna. Basile hafði rétt áður klikkað á tveimur vítaskotum til að svo gott sem klára leikinn.

Lokatölur 93-90 Grindavík í vil sem þar með vinna sinn þriðja leik í röð. Tapið í kvöld hjá Þór kemur hins vegar eftir fjóra sigurleiki þeirra í röð en þeir voru í toppsæti deildarinnar fyrir leikinn.

Af hverju vann Grindavík?

Það var ekki mikið á milli liðanna í lokin. Grindvíkingar fengu framlag úr fleiri áttum og voru oft á tíðum grimmari í fráköstum. Þegar DeAndre Kane var ekki að finna sig í fyrri hálfleiknum steig Daniel Mortensen upp og Grindvíkingar eru einfaldlega með ansi gott vopnabúr.

Þórsarar voru frekar linir í fyrri hálfleiknum en öflugir í þeim síðari. Það vantaði ekki mikið upp á til að þeir næðu að stela sigrinum. Skotin duttu ekki þegar á þurfti að halda og Bandaríkjamaðurinn Darwin Davis hitti til dæmis aðeins úr fjórum skotum í sautján tilraunum utan af velli.

Þessir stóðu upp úr:

Dedrick Dion Basile átti fínan leik fyrir Grindavík þó svo að hann sé eflaust svekktur að hafa klikkað á vítum undir lokin sem hefðu getað verið dýrkeypt. Daniel Mortensen var góður í fyrri hálfleik og DeAndre Kane steig upp undir lokin

Ólafur Ólafsson hitti ekki á sinn besta leik en bætti það upp með miklum dugnaði. Þá verður að minnast á innkomu Arnórs Tristans Helgasonar sem kom eins og stormsveipur af bekknum, tróð í tvígang og barðist eins og ljón.

Hvað gekk illa?

Þórsarar voru litlir í sér í fyrri hálfleik og það gaf svolítið tóninn þegar Grindvíkingar náðu þremur sóknarfráköstum í fyrstu sókninni. Reynsluboltarnir Davíð Arnar Ágústsson og Emil Karel Einarsson skoruðu aðeins fimm stig samtals og Þórsarar þurfa meira frá þeim.

Lykilmenn liðanna voru ekki að hitta sérstaklega vel. Darwin Davis var 4/17 utan af velli og Ólafur Ólafsson 3/16.

Hvað gerist næst?

Grindvíkingar halda til Hveragerðis í næstu umferð en Þórsarar taka á móti Breiðablik í Þorlákshöfn.

Lárus: Ég bið ekkert um meira á erfiðum útivelli

Lárus er kominn með ansi langan sjúkralista í hendurnarVísir/Bára Dröfn

Lárus Jónsson þjálfari Þórs sagði í raun ekkert sérstakt hafa skilið á milli liðanna á lokamínútunum. Spennan var mikil í Grindavík undir lok leiksins.

„Mér fannst við fá góð tækifæri til að vinna leikinn. Ég bið ekkert um meira á erfiðum útivelli. Mér fannst strákarnir spila til að vinna leikinn, sérstaklega í seinni hálfleik. Mér fannst við aðeins værukærir í fyrri hálfleik en við vorum óhræddir við að taka stór skot og komum okkur aftur inn í leikinn. Við sýndum góða baráttu, góða baráttu í fráköstum í seinni hálfleik. Þetta voru tvö góð lið að berjast og annað þeirra vann með þremur,“ sagði Lárus í samtali við Vísi eftir leik í kvöld.

Lárus nefndi sérstaklega við blaðamann fyrir leik í kvöld að Þórsarar þyrftu að hafa hemil á Grindavík í sóknarfráköstum. Í fyrstu sókn leiksins náðu heimamenn þremur slíkum sem rímar við orð Lárusar um værukærð Þórsara.

„Við löguðum þetta bara með því að láta Fotios (Lampropoulos) byrja í seinni hálfleik og hann var góður að frákasta fyrir okkur í kvöld. Kannski vorum við bara of litlir. Þessi fráköst voru samt eftir þriggja stiga skot og svolítið langt úti á velli. En þetta gaf svolítil fyrirheit hvernig fyrri hálfleikur var. Mér fannst hann meiri eign Grindvíkinga en ég var mjög ánægður með seinni hálfleikinn.“

Eftir tap í fyrstu umferð Subway-deildarinnar unnur Þórsarar fjóra leiki í röð en voru að tapa öðrum leik sínum á tímabilinu í kvöld. Lárus var nokkuð sáttur með gang mála.

„Mér finnst við vera búnir að bæta okkur og töluverð framför hjá liðinu. Ég er nokkuð sáttur við þá og ég held að maður geti ekki beðið um eitthvað mikið, mikið meira. Auðvitað myndi ég vilja að við myndum alltaf spila eins og við gerðum eftir miðjan þriðja leikhluta og í þeim fjórða. Þetta er sjötta umferð og kannski ekki hægt að biðja um meira.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira