Erlent

Segja Ísraela hafa sam­þykkt tíma­bundin hlé

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísraelskir hermenn á Gasaströndinni.
Ísraelskir hermenn á Gasaströndinni. Ísraelski herinn

Ríkisstjórn Ísrael hefur samþykkt að hætta árásum á Gasaströndina í fjórar klukkustundir á degi hverjum. Með þessu er vonast til þess að fleiri óbreyttir borgarar geti flúið frá norðurhluta Gasa, þar sem barist er á götum Gasaborgar og annarra byggða.

Hléin á einnig að nota til að koma neyðarbirgðum frá Egyptalandi til borgara.

Talsmaður þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins opinberaði þetta í kvöld og sagði fyrirkomulagið hefjast í dag. Á hvert hlé að vera tilkynnt með þriggja klukkustunda fyrirvara.

Samkvæmt frétt Washington Post hafa Ísraelar ekki tekið fyllilega undir þessa yfirlýsingu frá Bandaríkjunum. Einn talsmaður ísraelska hersins sagði að verið væri að gera staðbundnar og tímabundnar pásur á grunni mannúðar.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og aðrir í ríkisstjórn hans hafa þrýst á ráðamenn í Ísrael um að hætta árásum í nokkra daga en það hafa Ísraelar ekki samþykkt. Biden sagði í dag að formlegt vopnahlé væri ekki í myndinni og að viðræður um svokallaðar mannúðarpásur hefðu tekið lengri tíma en hann hefði vonast eftir.

Harðir bardagar geisa

Gasaströndin er eitt þéttbýlasta svæði heimsins en þar búa um 2,3 milljónir manna á svæði sem er gróflega 40 kílómetra langt og tíu kílómetra breitt. Nærri því tveir þriðju íbúa eru taldir hafa þurft að flýja heimili sín vegna gífurlega umfangsmikilla árása Ísraela á svæðið undanfarinn mánuð.

Ísraelar segjast telja að höfuðstöðvar Hamas-samtakanna megi finna í göngum undir Gasaborg. Herinn hefur klippt Gasaströndina í tvennt og hafa umkringt borgina, sem er á norðurhluta svæðisins.

Þúsundir hafa flúið borgina en talið er að tugir þúsunda manna séu þar enn.

Netanjahú sagður hafa hafnað samkomulagi

Í frétt sem birt var á vef Guardian í dag er því að haldið fram að Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra ­Ísrael, hafi hafnað því að gera fimm daga vopnahlé við Hamas-samtökin og aðra vígahópa á Gasaströndinni. Átti það að vera í skiptum fyrir frelsi hluta þeirra gísla sem Hamas-liðar halda í göngum sínum undir Gasaströndinni.

Heimildarmenn Guardian segja að samkvæmt tilboðinu hafi átt að frelsa börn, konur, eldri borgara og veikt fólk í haldi Hamas. Viðræðurnar eiga að hafa farið fram áður en Ísraelar gerðu innrás á Gasa og mun hún hafa verið gerð eftir að Netanjahú hafnaði tilboðinu.

Talið er að Hamas-liðar hafi tekið um 240 manns í gíslingu í árásum þeirra á suðurhluta Ísrael þann 7. október og hafa leiðtogar Hamas meðal annars krafist þess að þúsundum Palestínumanna í haldi Ísraela verði sleppt í skiptum fyrir gíslana.

Óljóst er hve margir þeirra eru enn á lífi eftir umfangsmiklar loft- og stórskotaliðsárásir Ísraela á Gasaströndina undanfarinn mánuð og hörð átök á jörðu niðri á norðurhluta Gasastrandarinnar. Í síðasta mánuði sagði einn talsmaður Hamas að um fimmtíu gíslar hefðu dáið í árásum Ísraela en það hefur aldrei verið staðfest.

Ráðamenn í Ísrael hafa heitið því að frelsa þá gísla sem Hamas-liðar tóku. Þeir hafa þó ekki viljað gera hlé á átökunum og árásum og segja bestu leiðina til að frelsa gíslana vera að halda þrýstingi á Hamas.


Tengdar fréttir

Forseti Palestínu biðlar til alþjóðasamfélagsins að stilla til friðar

Forsætisráðherra Palestínu biðlaði til alþjóðasamfélagsins í dag að þrýsta á endalok stríðsátaka á Gaza og spurði hversu margir þyrftu að deyja og hvað eyðileggingin þyrfti að verða mikil áður nóg væri komið. Alþingi samþykkti ályktun utanríkismálanefndar um átökin á Gaza í dag með öllum greiddum atkvæðum.

Skora á íslensk stjórnvöld að bregðast við krísunni á Gasa

Íslenskir læknar og hjúkrunarfræðingar hafa sent íslenskum stjórnvöldum sitthvort opinbera bréfið vegna ástandsins á Gasa. Undirrituð krefjast þess að íslensk stjórnvöld bregðist við atburðunum og krefjist þar vopnahlés og þrýsti á Ísrael um að stöðva árásir.

Leggja lokadrög að samkomulagi um mannúðarhlé gegn lausn gísla

Viðræður standa yfir um þriggja daga mannúðarhlé á árásum Ísraelshers á Gasa gegn því að Hamas sleppi um tug gísla sem samtökin hafa í haldi. Frá þessu greinir Associated Press og hefur eftir fjórum ónafngreindum heimildarmönnum.

Vörpuðu sprengjum á byltingarverði í Sýrlandi

Bandaríkjamenn gerðu í kvöld loftárásir í austurhluta Sýrlands, sem sagðar eru hafa beinst gegn byltingarvörðum Írans og vígahópum sem Íran styður. Þá var bandarískur dróni skotinn niður af Hútum yfir Rauðahafinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×