Minnst fimm hundruð skjálftar hafa riðið yfir frá því á miðnætti og þar af hafa sjö þeirra mælst þrír að stærð eða stærri. Allflestir hafa raðast niður suðaustan við Sílingarfell. Stærsti skjálftinn varð klukkan korter í eitt og mældist 4,1 að stærð. Allir skjálftarnir hafa verið á um 5 til 5,7 km dýpi. Einar Hjörleifsson er náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni.
„Heilt yfir, ef við skoðum stöðuna, þá erum við áfram að sjá þessar jarðskjálftakviður koma fram út af þessari þenslu sem er vestan við Þorbjörninn og við sáum í gær eftir stóru skjálftana sem riðu yfir eftir miðnætti í gær að þá kom svona svolítið hlé í skjálftavirknina en nú er hún bara að taka sig upp aftur og við verðum bara að vakta þetta áfram og vera viðbúin því að finna fyrir skjálftum áfram.“
Fleiri mælistöðvar settar upp á Reykjanesi
Samkvæmt nýjustu GPS gögnum er landris áfram stöðugt á svæðinu en starfsfólk Veðurstofunnar setti í gær upp fleiri GPS mælistöðvar til að geta fylgst enn betur með þróuninni.
Gátuð þið numið einhverja breytingu á hraða landrissins í kjölfar stóru, stóru skjálftanna sem riðu yfir í fyrrinótt?
„Við sjáum að GPS-ið tekur stökk en við þurfum að fá fleiri mælipunkta til að sjá hvort risið heldur áfram á sama hraða en við þurfum þá að bíða áfram næstu átta tíma til að fá frekari punkta til að gefa okkur betri heildarmynd um hvernig þetta er að þróast.“
Áfram má búast við skjálftum allt að 5 að stærð
Eru meiri líkur á eldgosi núna heldur en síðustu daga eða er staðan hreinlega bara óbreytt?
„Við metum það svo að staðan er í rauninni óbreytt eins og er og við þurfum að vakta þetta vel áfram og við erum ennþá inn í þessum atburði og við getum búist núna áfram við skjálftum á svæðinu allt að um 5 að stærð og við verðum bara að búast við að þessar jarðskjálftakviður verði áfram á meðan þenslan er þarna vestan við Þorbjörn.“
Uppfærsla kl 13. 22: Fréttin hefur verið uppfærð með nýjustu upplýsingum um skjálftavirknina.