Enski boltinn

Maddison ekki með Tottenham fyrr en á nýju ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Maddison sést hér liggja sárþjáður á vellinum eftir að hann meiddist á móti Chelsea.
James Maddison sést hér liggja sárþjáður á vellinum eftir að hann meiddist á móti Chelsea. Getty/Alex Pantling

Meiðsli James Maddison frá því á mánudagskvöldið eru það alvarleg að hann missir ekki aðeins af landsleikjum Englendinga heldur verður hann ekkert með Tottenham fyrr en í fyrsta lagi á nýju ári.

Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham, staðfesti þetta á blaðamannafundi í dag fyrir leik liðsins á móti Wolves um helgina.

Hinn 26 ára gamli Maddison meiddist á ökkla í tapleiknum á móti Chelsea sem var fyrsta tap Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Maddison hefur skorað þrjú mörk og gefið fimm stoðsendingar í ellefu leikjum með Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Það eru erfiðir tímar fram undan hjá Tottenham því varnarmaðurinn Micky van de Ven verður líka frá keppni þar til á nýju ári og brasilíski framherjinn Richarlison er líka meiddur.

„Meiðsli Maddison eru mun verri en við héldum fyrst. Hann kom út af eftir ökklameiðsli en var svo slæmur daginn eftir að við sendum hann í myndatöku,“ sagði Ange Postecoglou.

Cristian Romero og Destiny Udogie missa báðir af leiknum á móti Úlfunum þar sem þeir fengu rautt spjald í Everton leiknum og taka því út leikbann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×