Jóhann Berg í tap­liði þegar Arsenal jafnaði City að stigum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn Arsenal fagna einu marka sinna í dag.
Leikmenn Arsenal fagna einu marka sinna í dag. Vísir/Getty

Lið Arsenal komst aftur á sigurbraut í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu með 3-1 sigri á Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum hans í Burnley í dag. Jóhann Berg var í byrjunarliði Burnley í dag og lék allan leikinn. Mikel Arteta mætti fyrrum lærisveini sínum Vincent Kompany á hliðarlínunni í dag en Arteta var aðstoðarþjálfari City þegar Kompany var þar fyrirliði.

Leandro Trossard kom Arsenal í forystuna þegar hann skoraði með skalla af miklu harðfylgi í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Í upphafi seinni hálfleiks jafnaði hins vegar Josh Brownhill metin fyrir Burnley þegar skot hans úr vítateignum breytti um stefnu á varnarmanni og hafnaði í netinu. Staðan þar með orðin 1-1. Það var hún hins vegar ekki lengi því William Saliba kom Arsenal í forystu á ný með skallamarki eftir hornspyrnu aðeins þremur mínútum síðar.

Oleksandr Zinchenko rak síðan síðasta naglann í kistu Burnley þegar hann skoraði frábært mark en hann klippti þá boltann viðstöðulaust eftir darraðadans í teignum. Engu skipti þó Fabio Vieira hafi fengið rautt spjald undir lokin fyrir klaufalegt brot. Arsenal sigldi 3-1 sigri í höfn og er þar með jafnt Manchester City á stigum en hafa leikið einum leik meira.

Gott gengi Everton heldur áfram

Í Suður-Lundúnum var Everton í heimsókn hjá Crystal Palace. Vitali Mykolenko kom gestunum yfir strax á fyrstu mínútu leiksins en Eberechi Eze var búinn að jafna fimm mínútum síðar.

Staðan í hálfleik var 1-1 en Abdoulaye Doucoure skoraði fyrir Everton í upphafi síðari hálfleiks áður en Odsonne Edouard jafnaði á ný fyrir Crystal Palace með marki á 73. mínútu.

Vitalii Mykolenko kom Everton á bragðið gegn Crystal Palace í dag.Vísir/Getty

Lærisveinar Sean Dyche voru hins vegar ekki á því að fara aðeins með eitt stig heim til Liverpool. Á 86. mínútu skoraði Idrissa Gueye sigurmarkið við mikinn fögnuð gestanna. Lokatölur 3-2 en þetta er fjórði leikur Everton í ensku úrvalsdeildinni án þess að tapa en liðið hefur unnið þrjá þessara leikja. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira