Marka­súpa á Brúnni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Man City var með unninn leik þegar Rúben Dias fór í þessa tæklingu.
Man City var með unninn leik þegar Rúben Dias fór í þessa tæklingu. Matthew Ashton/Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City gerðu 4-4 jafntefli við Chelsea í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Leikurinn var hundleiðinlegur framan af fyrri hálfleik þangað til gestirnir frá Manchester fengu einkar ódýra vítaspyrnu. Ekki sú fyrsta sem þeir fá á leiktíðinni en norska framherjanum Erling Braut Håland gat ekki verið meira sama og skoraði af öryggi.

Skömmu síðar skoraði Thiago Silva með frábærum skalla eftir hornspyrnu Conor Gallagher og staðan orðin 1-1. Á 37. mínútu fékk Raheem Sterling frábæra sendingu inn fyrir vörn gestanna og kláraði færið afbragðs vel. Sterling lék lengi vel með Man City og leiddist ekki að koma Chelsea yfir.

Heimamenn virtust vera á leið inn í hálfleikshléið marki yfir en allt kom fyrir ekki þar sem Manuel Akanji skoraði með góðum skalla eftir fyrirgjöf Bernardo Silva í kjölfar hornspyrnu gestanna. Staðan orðin 2-2 og allt jafnt í hálfleik.

Gestirnir fagna öðru marki sínu í dag.EPA-EFE/DANIEL HAMBURY

Segja má að Man City hafi tvívegis skorað á hinum fullkomna tímapunkti í leiknum en liðið endaði fyrri hálfleik á marki og hóf þann síðari á sama hátt. Julian Álvarez gaf nefnilega á Håland þegar tvær mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og staðan orðin 3-2 gestunum í vil.

Markasúpan var hins vegar langt því frá búin en Nicolas Jackson getur ekki hætt að skora og lúðraði knettinum í netið á 67. mínútu eftir að boltinn datt fyrir hann í teignum. Staðan 3-3 og allt jafnt enn á ný.

Það var svo á 86. mínútu sem spænski miðjumaðurinn Rodri virtist hafa tryggt gestunum sigurinn með skoti sem fór af varnarmanni og í netið. 

Rodri hélt hann hefði skorað sigurmarkið.EPA-EFE/DANIEL HAMBURY

Það var hins vegar ekki svo því Rúben Dias fékk dæmda á sig vítaspyrnu í uppbótartíma. Cole Palmer, sem Chelsea keypti frá Man City í sumar, fór á punktinn og skoraði af gríðarlegu öryggi. 

Lokatölur á Brúnni 4-4 í hreint út sagt ótrúlegum knattspyrnuleik.

Stigið þýðir að Englandsmeistararnir eru á toppi deildarinnar að loknum 12 umferðum með 28 stig, einu stigi meira en Liverpool, Arsenal og Tottenham Hotspur. Á sama tíma er Chelsea í 10. sæti með 16 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira