Fótbolti

Fyrrum lands­liðs­maður Gana lést eftir að hafa hnigið niður í leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Raphael Dwamena lék áður með liði Vejle í Danmörku.
Raphael Dwamena lék áður með liði Vejle í Danmörku. Vísir/Getty

Fyrrum landsliðsmaður Gana í knattspyrnu lést á sjúkrahúsi í Albaníu í gær eftir að hafa fengið hjartaáfall í miðjum leik með Egnatia-Rrogozhine.

Greint er frá málinu á heimasíðu TV2 í Noregi en þar er sagt frá því að Raphael Dwamena hafi hnigið til jarðar í miðjum leik Egnatia-Rrogozhine og Partizani í albönsku deildinni í gær. Dwamena hafi fengið fyrstu hjálp á vellinum og í kjölfarið verið fluttur á sjúkrahús.

Því miður náðist ekki að bjarga lífi Dwamena á sjúkrahúsinu og greindi albanska knattspyrnusambandið frá andláti hans í gær. Búið er að fresta öllum leikjum í Albaníu vegna andláts hans.

Dwamena var 28 ára gamall og átti að baki átta landsleiki með landsliði Gana og hafði skorað í þeim tvö mörk. Hann spilaði síðasta landsleik sinn árið 2018. Á ferlinum hefur hann leikið með Zurich, Velje, Real Zaragoza og Levante í efstu deild á Spáni.

Árið 2017 var Dwamena á leið til enska úrvalsdeildarliðsins Brighton en féll á læknisskoðun eftir að læknar félagsins uppgötvuðu hjartagalla. Ári seinna festi spænska liðið Levante kaup á Dwamena og var græddur í hann gangráður. Dwamena lét fjarlægja gangráðinn síðar eftir að hafa fengið úr honum rafstuð.

Læknar ráðlögðu Dwamena að leggja skóna á hilluna en hann ákvað að halda áfram að spila knattspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×