Skoðun

Land­vernd styður Grinda­vík

Björg Eva Erlendsdóttir skrifar

Landvernd, umhverfissamtök sendu í gær sveitarstjóra Grindavíkur eftirfarandi bréf, sem er opið bréf til Grindvíkinga og stjórnvalda. Í bréfinu lýsa samtökin fullum stuðningi við nauðsynlegar framkvæmdir sem tryggja innviði og samfélag á hamfarasvæðum og bjóða fram aðstoð við vinnu í samræmi við markmið Landverndar um að verja og endurreisa náttúru og umhverfi eins og best hæfir náttúrulegum aðstæðum og búsetu í landinu.

Kæri Fannar Jónasson, sveitarstjóri í Grindavík

Landvernd, náttúruverndarsamtök, lýsa samstöðu og samkennd með Grindvíkingum á erfiðum tímum og bjóðast til leggja sitt af mörkum til aðstoðar í neyð.

Samtökin bjóða því fram aðstoð sjálfboðaliða við ýmis störf og/eða við ráðgjöf vegna nauðsynlegra framkvæmda sem ráðast verður í til að tryggja líf og limi fólks og mikilvæga innviði á svæðinu sem nú er hættusvæði vegna skjálfta og eldsumbrota.

Fjölmiðlar hafa spurt hvort Landvernd leggist gegn framkvæmdum við varnargarða sem áætlað er að reisa til að tryggja innviði í Svartsengi og nágrenni, leiki vafi á því hvort náttúruverndarlög séu virt. Og hyggist jafnvel kæra framkvæmdirnar. Svar Landverndar er að náttúruverndarsamtök eins og allir landsmenn setja öryggi íbúa á svæðinu í algjöran forgang, styðja nauðsynlegar framkvæmdir og treysta ráðgjöf vísindamanna um varnir sem ráðast þarf í. Samtökin treysta því einnig að fullt tillit verði tekið til umhverfisins á umbrotasvæðinu og leitast við að tryggja verndun náttúrunnar eins og hægt er í ríkjandi óvissuástandi.

Auk þess að bjóða fram aðstoð núna, vill Landvernd styðja við risavaxin verkefnin framundan eins og hægt er. Þegar nauðsynleg vinna fer af stað við nýtt heildstætt áhættumat fyrir Reykjanessvæðið og framkvæmdir á grunni þess, býðst Landvernd líka til þess að koma að því starfi á grundvelli þess hlutverks sem samtökin gegna.

Viðeigandi er að rifja upp að Grindavíkurbær er aðildarfélag í Landvernd og er það sérstök ánægja að bjóða fram aðstoð til sveitarfélags sem hefur um árabil styrkt náttúruvernd með aðild að Landvernd.

Gangi Grindvíkingum allt í haginn.

Fyrir hönd Landverndar.

Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri.




Skoðun

Sjá meira


×