Enski boltinn

Klopp kvartar yfir leik­tíma: „Hafa enga til­finningu fyrir fót­bolta“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp lét í sér heyra vegna leiktíma Liverpool.
Jürgen Klopp lét í sér heyra vegna leiktíma Liverpool. getty/Robin Jones

Enn einn ganginn á Liverpool fyrsta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni eftir landsleikjahlé. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri liðsins, er orðinn langþreyttur á því.

Liverpool mætir Englandsmeisturum Manchester City í hádeginu 25. nóvember, þrátt fyrir að aðeins þrír dagar séu frá því nokkrir leikmenn liðanna spila í undankeppni HM í Suður-Ameríku. Má þar meðal annars nefna markverðina Ederson og Alisson, Julián Álvarez, Alexis Mac Allister og Darwin Núnez.

Klopp lét ensku úrvalsdeildina og rétthafa hennar heyra það eftir 4-0 sigur Liverpool á Brentford í gær.

„Hvernig geturðu sett svona leik á klukkan 12:30 á laugardegi? Fólkið sem ákveður þetta hefur enga tilfinningu fyrir fótbolta. Heimurinn borgar mest til að horfa á fótbolta á þessu augnabliki. Allir Suður-Ameríkumennirnir koma til baka með sömu flugvél sem nær í þá hingað og þangað,“ sagði Klopp.

„Þú þarft að berjast í gegnum erfiðustu deild í heimi og vera tilbúinn á fimmtudegi, sunnudegi og fimmtudegi. Og ef enska úrvalsdeildin fær tækifæri til þess, vertu tilbúinn klukkan 12:30 á laugardegi.“

Frá því Klopp tók við Liverpool 2015 hefur liðið fjórtán sinnum spilað leik í hádeginu á laugardegi eftir landsleikjahlé, átta sinnum oftar en næsta lið á listanum, Tottenham.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×