Fótbolti

Enrique ekki á­nægður með Mbappé þrátt fyrir þrennuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe með Luis Enrique eftir leik hjá Paris Saint-Germain liðinu.
Kylian Mbappe með Luis Enrique eftir leik hjá Paris Saint-Germain liðinu. Getty/ Franco Arland

Luis Enrique, þjálfari Paris Saint-Germain, var ekki ánægður með stórstjörnu liðsins þrátt fyrir að Kylian Mbappé hafi skorað þrennu í leik liðsins um helgina.

Mbappé skoraði öll þrjú mörkin í 3-0 sigri á Reims en með þessum sigri komst liðið í toppsæti deildarinnar.

Mbappé skoraði fyrsta markið eftir sendingu frá Ousmane Dembélé og bætti síðan tveimur mörkum við. Hann er nú kominn með þrettán deildarmörk í aðeins ellefu leikjum.

„Ég er ekki sérstaklega ánægður með Kylian í dag,“ sagði Luis Enrique við Amazon Prime eftir leikinn. Það urðu örugglega margir hissa á því að spænski þjálfarinn hafi þorað að gagnrýnd stærstu stjörnu franska fótboltans.

„Af hverju? Margir stjórar eru svo skrítnir. Ég hef ekkert að segja um mörkin og það er yfir engu að kvarta þar. Ég held aftur á móti að hann geti hjálpað liðinu meira á öðrum sviðum því hann er okkur svo mikilvægur,“ sagði Enrique.

„Ég mun ræða það fyrst við hann sjálfan um hvað það er og ég mun líka aldrei segja ykkur frá því þar sem að þetta er ekki fyrir almenning að vita. Við teljum að Kylian sé einn af bestu leikmönnum heims og það er enginn vafi um það. Við viljum hins vegar fá meira frá honum og það er mín skoðun að hann þurfi að gera meira fyrir liðið,“ sagði Enrique.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×