Enski boltinn

Man. City setti nýtt met í tekjum á síðasta rekstrarári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola með Meistaradeildarbikarinn sem Manchester City vann í fyrsta sinn síðasta vor.
Pep Guardiola með Meistaradeildarbikarinn sem Manchester City vann í fyrsta sinn síðasta vor. Getty/Visionhaus

Rekstur Englandsmeistaraliðs Manchester City gengur frábærlega þessa dagana og það sést vel í uppgjörinu á síðasta fjárhagsári.

City setti nefnilega nýtt met í tekjum í ensku úrvalsdeildinni á rekstrarárinu 2022-23. Tekjur City á árinu voru 712,8 milljónir punda eða 126,3 milljarðar íslenskra króna.

Aldrei áður hefur lið í deildinni aflað meira á einu fjárhagsári. Þetta er meira en 648,4 milljóna punda tekjur Manchester United fyrir síðasta ár en United setti metið þegar félagið tilkynnti þær tölur á dögunum.

Tekjur Manchester City hækkuðu um 99,8 milljónir punda, 17,7 milljarða króna, á milli ára.

Þetta er þó ekki met í evrópska fótboltanum en Barcelona skilaði 861,43 milljónum punda í heildartekjum árið 2019. Það eru þó einhverjar kenningar um að sú tala standist ekki skoðun en hún stendur þó í uppgjöri félagsins.

Hagnaður City á árinu var 80,4 milljónir punda sem er mikil bæting á besta ári félagsins frá því í fyrra þegar félagið hagnaðist um 41,7 milljónir punda.

City fékk mun meiri sjónvarpstekjur en árið á undan og er það til komið vegna mikillar velgengi félagsins innan vallar. City vann þrennuna á síðasta tímabili og var fyrsta enska félagið til að ná því síðan Manchester United á 1998-98 tímabilinu.

Launakostnaður City jókst reyndar um 70 milljónir punda og var 422,89 milljónir punda. Félagið græddi aftur á móti 121,7 milljónir punda á leikmannasölum. Kaup félagsins fyrir núverandi tímabil, á mönnum eins og Jeremy Doku, Mateo Kovacic, Josko Gvardiol og Matheus Nunes teljast til næsta rekstrarárs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×