Menning

„Minnir á­horf­andann á að við þurfum ekki að hlusta á allt“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Listakonan og skartgripahönnuðurinn Hendrikka Waage stendur fyrir sýningunni Valkostir samtímans.
Listakonan og skartgripahönnuðurinn Hendrikka Waage stendur fyrir sýningunni Valkostir samtímans. Aðsend

„Ég byrjaði mjög snemma að hafa áhuga á myndlist, eflaust um fjögurra ára aldur. Ég var mikill dundari og var alltaf að lita og teikna. Ég man ekki eftir mér öðruvísi,“ segir listakonan og skartgripahönnuðurinn Hendrikka Waage, sem stendur fyrir listasýningunni Valkostir samtímans. Sýningin er opin á föstudag og laugardag í Hannesarholti.

Frá London til Reykjavíkur

„Ég er búin að vera að vinna að sýningunni yfir árið. Einnig verða nokkur málverk úr sýningu sem var haldin í sumar á vegum ArtChina gallery í London. Ég var svo heppin að fá inn í Hannesarholti, þessu dásamlega og sögulega húsi.“

Hendrikka Waage er alþjóðleg listakona sem er þekkt fyrir skartgripahönnun sína og lífleg listaverk sín. Í fréttatilkynningu segir að verk hennar kanni mannlegt form og blæbrigði upplýsingaóreiðu nútímans.

„Með einstökum stíl innblásinn af alþjóðlegri reynslu hefur Hendrikka unnið sér inn viðurkenningu bæði í heimalandi sínu Íslandi og víðar. Í endalausu upplýsingastreymi nútímans býður Hendrikka Waage í ferðalag inn í heim sem hún kýs að nefna „Valkostir Samtímans“. Sýningin Valkostir Samtímans gerir atlögu að skilningarvitum þínum, ögrar sjónarhorni þínu og hvetur þig til að sigla um margbreytileika stafrænnar aldar með skýrleika.“

Meðal verka Hendrikku Waage á sýningunni.Hendrikka Waage

Myndlistin endurspeglar hennar upplifun af ólíkum menningarheimum þar sem hún skyggnist inn í nútíðina og veltir fyrir sér hvernig heimurinn þróast í framtíðinni.

„Ég verð að segja að ég sé sterka tengingu á milli málverkanna minna og skartgripanna. Sumar af konunum eru til dæmis með skartgripina á myndunum mínum. Þær eru einnig litríkar eins og steinarnir í skartgripunum mínum,“ segir Hendrikka en sterkir litir einkenna verkin.

Kona með eitt eyra og eyrnalokk eftir Hendrikku.Hendrikka Waage

Alltaf tengd Íslandi

Aðspurð hvort það sé henni mikilvægt að halda tengingu við heimalandið sitt segir Hendrikka:

„Já, ég er alltaf í mikilli tengingu við Ísland. Sonur minn, tengdadóttir og barnabarn búa eins og er á Íslandi sem og stórfjölskyldan. Mér finnst alltaf gaman að fá að sýna list mína á Íslandi.“

Guðjón Böðvarsson sonur Hendrikku og tónlistarmaður mun sjá um tónlistina á laugardaginn á milli klukkan 14:00 og 16:00. Hann mun meðal annars frumflytja lag sem hann samdi með Doctor Victori. 

Verk Hendrikku You are either Real or not real sem verður á sýningunni.Hendrikka Waage

Ólíkir menningarheimar sameinast í listsköpuninni

Hendrikka sækir innblásturinn í ýmsar áttir en hún hefur búið víða um heiminn. Listsköpun hennar vísar í alþjóðlega reynslu hennar og búsetu á Íslandi, Japan, Rússlandi, Bandaríkjunum og Bretlandi. Reynsla hennar og upplifanir í þessum ólíku menningarheimum sameinast í listsköpun hennar og vekur upp spurningar sem hver og einn finnur merkingu í.

„Síðastliðin ár er ég búin að vera með einfalt mótíf af konum með eitt eyra. Alla daga streyma endalaust af upplýsingum til okkar úr öllum áttum og við erum heilaþvegin af hinu og þessu, þannig að ég ákvað að hafa einungis eitt eyra á þeim – til að minna áhorfandann á að við þurfum ekki að hlusta á allt. 

Núna er ég að mála og kynna stærri málverk sem eru unnin með akrýl litum og kýs ég að halda áfram með verurnar með eitt eyra. Sumar verurnar mínar eru með eins og slæðu fyrir hálfu andlitinu því það er svo margt í heiminum sem við tökum ekki eftir eða viljum ekki sjá.“

Hendrikka sækir innblástur til fjölbreyttra menningarheima en hún hefur búið og starfað víða um heiminn.Aðsend

Baróninn sem Barónsstígur er kenndur við

Þá leitar Hendrikka einnig í nærumhverfi sitt og nefnir skemmtilega sögu af verki sem hún kallar The Le Baron Carafe.

„Karaflan sem ég mála í því verki er karafla sem ég erfði eftir foreldra mína sem var eitt sinn í eigu Baron Charles Francois Xavier Gauldree. Hann var oftast kallaður Baróninn á Hvítárvöllum og er Barónsstígur kenndur við hann. Ég notaði munstrið úr karöflunni sem innblástur í gerð Barón skartgripalínunnar minnar.“

Karaflan umrædda.Hendrikka Waage

Sýningin opnar sem áður segir á föstudag í Hannesarholti og verður einnig opin á laugardeginum frá 14-16. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.