Fótbolti

Þór­dís Elva út í at­vinnu­mennsku: „Hún er mjög klár leik­maður“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórdís Elva Ágústsdóttir í leik með Val á móti Breiðabliki
Þórdís Elva Ágústsdóttir í leik með Val á móti Breiðabliki Vísir/Vilhelm

Þórdís Elva Ágústsdóttir er nýjasti atvinnufótboltamaður okkar Íslendinga en hún er á leiðinni til sænska úrvalsdeildarfélagsins Växjö DFF.

Växjö sagði frá því á miðlum sínum að félagið hafi gert tveggja ára samning við uppöldu Haukakonuna.

Þórdís Elva spilaði vel með Íslandsmeisturum Vals í Bestu deildinni í sumar en þessi 23 ára miðjumaður var þá með sex mörk og tvær stoðsendingar í 23 leikjum.

Hún kom til Vals fyrir 2022 tímabilið og vann þrjá titla á tveimur árum sínum á Hlíðarenda því Valur varð Íslands- og bikarmeistari sumarið 2022.

Växjö endaði í áttuna sæti af fjórtán liðum í sænsku deildinni á síðustu leiktíð eftir að hafa verið nýliði í deildinni.

Þórdís Elva er alin upp í Haukum en spilaði með Fylki í þrjú tímabil áður en hún færði sig yfir í Val.

Dennis Popperyd, íþróttastjórinn hjá Växjö, er ánægður með komu Þórdísar en hún er fyrsti leikmaðurinn sem kemur til félagsins fyrir næsta tímabil.

„Við byrjum strax að styrkja liðið sem mun hjálpa við uppbyggingu liðsins. Þórdís er mjög fjölhæfur leikmaður sem getur spilað á miðjunni en einnig á vængnum. Hún er mjög klár leikmaður sem er með góðan vinstri fót,“ sagði Popperyd.

„Þórdís hefur sýnt það að hún getur bæði skorað með þrumuskoti af löngu færi en hún er líka góður sendingamaður. Hún mun koma með svolítið sem við höfum ekki í liðnu okkar í dag og mun styrkja okkur fyrir næsta tímabil,“ sagði Popperyd.

„Mér líður mjög vel með þetta og ég er rosalega spennt fyrir næstu tveimur árum með Växjö DFF,“ sagði Þórdís Elva í viðtali á heimasíðu félagsins.

„Ég fékk strax góða tilfinningu eftir fyrstu samtölin við Olof og Dennis. Ég er hrifinn af metnaði og markmiði félagsins á næstu árum,“ sagði Þórdís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×