„Íslensk náttúra getur verið óútreiknanleg og snúið öllu á hvolf. Það verðum við áþreifanlega vör við þessa dagana þegar jarðskjálftar og möguleiki á eldgosi hefur orðið til þess að bæjarfélagið Grindavík hefur með nær engum fyrirvara verið rýmt. Í slíkum aðstæðum skiptir öllu máli að stjórnvöld og íslenskt samfélag taki þétt utan um þau sem fyrir áfallinu hafa orðið og komi til móts við aðstæður þeirra og raunveruleika,“ segir í ályktuninni.
Þá segir að einn angi umræðunnar um viðbrögð snúi að skólastarfi fyrir börnin þar sem leik-, grunn- og tónlistarskólar þeirrar séu ekki starfandi. Þörf barnanna fyrir rútínu, samveru og nám sé mikilvæg og að vinna úr þeim áföllum sem þau hafi orðið fyrir.
„Sama áfalli hafa kennarar og stjórnendur skólanna í Grindavík orðið fyrir. Þau, eins og aðrir, eru enn í miðjum atburði og búa við óvissu um stærstu sem smæstu atriði daglegs lífs. Við bætist álagið við að reyna að nálgast það sem þeim er leyft að sækja, lítill svefn og ekki má gleyma að þau eiga líka börn, foreldra, ættingja og vini sem þarf að halda utan um á þessum óvissutímum,“ segir enn fremur.
„Það er lykilatriði að þeim, eins og öðrum í grindvísku samfélagi, verði gefinn tími og tilfinningalegt svigrúm til að vinna úr áfallinu og þau fái næði til að ná áttum áður en horft er til þess að snúa aftur til starfa. Þau verða að fá að vera íbúar í áfalli, vera með sínum nánustu og leyfa sér að reiðast, gráta og tala um reynslu sína hvert við annað.“
Horfa verði til skólastarfs þannig að nærgætni fyrir aðstæðum sé höfð í hávegi og kennarar og stjórnendur fái faglega aðstoð til að vinna úr sínum áföllum og svigrúm til að koma festu á líf sitt áður en kemur að því að snúa aftur til starfa.
„Um þau, eins og aðra Grindvíkinga, þarf að byggja varnargarð umhyggju, alúðar og virðingu fyrir þeirri óvissu sem ríkir um framtíð heimkynna þeirra.“