Þetta segir í svari Páls Einarssonar, prófessors emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, á Vísindavef HÍ við spurningunni „Hversu langt geta kvikugangar brotið sér leið? Gæti kvikugangur t.d. leitað undir Reykjanesbæ?“
„Kvikugangur er í raun sprunga í bergi sem er full af bergkviku. Sprungan myndast fyrir tilstilli spennu í berginu og ef vökvi er til staðar fyllir hann sprunguna jafnharðan og hún myndast. Þetta má orða á þann hátt að bergið brotni þegar spennan fer yfir brotmörk bergsins. Vökvinn, í þessu tilfelli kvikan, lækkar brotmörkin og getur þannig leitt til þess að sprunga myndast og stækkar þótt spennan breytist ekki,“ segir í svarinu.
Ekkert mæli gegn því kvikugangar geti ferðast lárétt í jarðskorpunni, jafnvel langar vegalengdir. Það ráði bergspennan mestu. Hér á landi ríki lárétt togspenna og allt eins líklegt að kvikugangurinn eigi auðveldara með að mynda lóðrétta sprungu sem breiðist út í lárétta stefnu. Við réttar aðstæður geti slíkur gangur ferðast langar leiðir.
Í umbrotunum við Kröflu á árunum 1975 til 1984 náði lengsti gangurinn frá Kröflu og út í Öxarfjörð, um 60 km. Þá myndaðist 48 km gangur í umbrotunum í Holuhrauni árið 2014, sem náði frá Bárðarbungu og til gosstöðvanna.
„Kvikugangur skilur eftir sig spor ef hann er nógu stór og nálægt yfirborði. Á yfirborðinu kemur fram sprungukerfi, sprungusveimur, sem endurspeglar legu gangsins og dýpi niður á hann. Beint yfir ganginum myndast venjulega sigdalur. Á Reykjanesskaga koma fram nokkrir slíkir og má með nokkurri vissu nota þá til marks um hvar gangar hafa farið um og hvar ekki. Grindavík liggur innan slíks sprungusveims og sprungusveimur eldstöðvarkerfis Krýsuvíkur liggur um austustu úthverfi Reykjavíkur, Kópavogs og Garðabæjar, eins og sést á kortinu hér fyrir ofan sem fengið er úr grein Páls Einarssonar o. fl. (2017). Reykjanesbær liggur hins vegar utan sprungusveima.“