Innlent

Í­búum um 100 fast­eigna hleypt inn í Grinda­vík í dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúum um 100 fasteigna verður hleypt inn í Grindavík í dag.
Íbúum um 100 fasteigna verður hleypt inn í Grindavík í dag. Vísir/Vilhelm

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að hleypa íbúum um 100 fasteigna inn í Grindavík í dag. Aðgerðir hefjast klukkan 9 en forsvarsmönnum fyrirtækja verður hleypt inn klukkan 15.

Eins og undanfarna daga er það ítrekað í tilkynningu að þeir einir fá að fara inn í bæinn sem þegar hefur verið haft samband við. Hægt er að skrá óskir um að komast inn í Grindavík á island.is.

„Aðkomuleið fyrir íbúa til verðmætabjörgunar í dag er um Suðurstrandarveg. Mót er við gatnamót Krýsuvíkurvegar. Heimildin tekur til rúmlega 100 fasteigna í Grindavík. Aðgerðin hefst kl. 9. Eftir kl. 15 í dag verður fyrirtækjum hleypt inn á svæðið. Ítrekað er að þeir einir fara inn í Grindavík sem hafa fengið boð um það. Samhliða þessu eru viðbragðsaðilar í sérverkefnum,“ segir í tilkynningunni.

„Vakin er athygli á því að það er ekki sjálfsögð krafa að fara inn á hættusvæði sem hefur verið rýmt af öryggisástæðum. Fyrst og fremst þarf að huga að öryggi viðbragðsaðila sem flestir eru sjálfboðaliðar. Þeirra öryggi þarf ávallt að tryggja. Áfram eru miklar líkur taldar á eldgosi.

Íbúar eru upplýstir um framkvæmdina og hvenær þeir eiga að mæta við gatnamót Grindavíkurvegar og Krýsuvíkurvegar. Íbúar verða fluttir með viðbragðsaðilum frá söfnunarstað utan Grindavíkur og frá heimilum í Grindavík til baka.

Í dag eru viðbragðsaðilar að vinna inn á mesta hættusvæði Grindavíkur. Fjölmiðlafólk hafi samband við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra varðandi aðgang að lokuðum svæðum. Undanþágur frá drónabanni eru veittar en afgreiðsla þeirra er í höndum ríkislögreglustjóra. Vegna veðurs er ekki gert ráð fyrir drónum inn á svæðinu í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×