Innlent

Telur að kvikugangurinn undir Grinda­vík sé hálfstorknaður

Kristján Már Unnarsson skrifar
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur sýnir berggang við Stykkishólmshöfn en slík fyrirbæri myndast í kvikuinnskotum.
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur sýnir berggang við Stykkishólmshöfn en slík fyrirbæri myndast í kvikuinnskotum. Mynd/Stöð 2.

Eldfjallafræðingurinn Haraldur Sigurðsson, einn kunnasti jarðvísindamaður Íslendinga, telur að kvikugangurinn undir Grindavík sé við það að storkna og að líkur á eldgosi hafi minnkað. Hann segir að ef hann byggi í Grindavík væri hann farinn heim fyrir jól.

Haraldur er fæddur og uppalinn í Stykkishólmi en á að baki langan alþjóðlegan vísindaferil við eldfjallarannsóknir víða um heim. Hann ræddi við okkur í dag frá Massachusetts í Bandaríkjunum. Þegar við báðum hann um að meta líkur á eldgosi við Grindavík benti hann á að kvikugangur sem þessi storknaði hratt.

„Það fer eftir því hvað hann er þykkur hversu hratt hann storknar. Kvikugangur sem er meter, hann storknar á nokkrum dögum,“ segir Haraldur í frétt Stöðvar 2 og giskar á að þessi sé um tveggja metra breiður.

„Ég mundi halda að hann sé búinn að tapa ansi miklum hita, að gangurinn sé orðinn hálfstorknaður, orðinn stinnur, og minni líkur á að kvikan gangi upp. Svo að ég mundi ekki búast við gosi núna.“

Grindavík er ein öflugasta útgerðarstöð landsins. Öll starfsemi í bænum hefur legið niðri frá því Almannavarnir fyrirskipuðu rýmingu þann 10. nóvember.Vilhelm Gunnarsson

En telur Haraldur að það fari þá að verða óhætt fyrir Grindvíkinga að snúa heim? Eða þurfa þeir að bíða í marga mánuði?

„Þetta er viðkvæmt mál. Og þetta eru ákvarðanir sem menn þurfa að taka.

Ef ég byggi í Grindavík þá mundi ég vera farinn heim. Nema ég væri með hús sem væri mitt í sigdalnum. Eða mjög nálægt sigdalnum.“

En bætir við að allur sé varinn góður.

„Og eðlilegt að sumu leyti að hafa flutt fólkið úr bænum. Ég mundi vera farinn heim fyrir jól,“ segir eldfjallafræðingurinn.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

Tuttugu mínútna langt viðtal við Harald má sjá hér:


Tengdar fréttir

Haraldur telur flekahreyfingar en ekki kviku orsaka umbrotin

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur telur flekahreyfingar orsök umbrotanna á Reykjanesskaga. Hann segir kviku, sem kunni að vera að gutla á um eins kílómetra dýpi í kvikuganginum, sennilega ekki nægjanlega til að valda eldgosi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×