Innlent

Ragnar Þór af­lýsir mót­mælum við Lands­bankann

Jakob Bjarnar skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur nú blásið af fyrirhuguð mótmæli við Landsbankann enda hafi bankarnir nú orðið við kröfugerðinni.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur nú blásið af fyrirhuguð mótmæli við Landsbankann enda hafi bankarnir nú orðið við kröfugerðinni. Vísir/Vilhelm

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur lýst því yfir að fyrirhuguðum mótmælum við Landsbankann, sem boðað hafði verið til klukkan 14 í dag, hefur verið aflýst.

Í tilkynningu frá Ragnari segir hann að mótmælunum hafi verið aflýst en meginkrafa hans var sú að bankarnir felldu niður vexti og verðbætur næstu þrjá mánuðina af húsnæðislánum Grindvíkinga. Ragnar segir að nú hafi bankarnir orðið við þeirri kröfu sem gefi Grindvíkingum það andrými sem kallað var eftir og dragi það úr óvissu.

„Einnig gefur það okkur tíma til að leita langtímalausna á þeim gríðarlega vanda sem blasir við Grindvíkingum. En sú vinna er í fullum gangi,“ segir í yfirlýsingu Ragnars en auk hans rita þeir Hörður Guðbrandsson formaður verkalýðsfélags Grindavíkur og Einar Hannes Harðarson, formaður Vélstjóra og sjómannafélags Grindavíkur, undir yfirlýsinguna.

Ragnar Þór boðaðar að næst verði sjónum beint að lífeyrissjóðunum: „Sem við skorum á að fylgi fordæmi bankanna án tafar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×