Menning

Ís­land sem dótakassi fyrir spillingu

Jakob Bjarnar skrifar
Þorvaldur Logason hefur sent frá sér bók sem er að efni til svo kunnuglegt en saman tekið er eins og um furðusögu sé að ræða; Ísland virðist í sérflokki þegar spillingin er annars vegar.
Þorvaldur Logason hefur sent frá sér bók sem er að efni til svo kunnuglegt en saman tekið er eins og um furðusögu sé að ræða; Ísland virðist í sérflokki þegar spillingin er annars vegar. vísir/vilhelm

Ein af bókum þessa jólabókaflóðs kemur úr óvæntri átt. Þorvaldur Logason heimspekingur og félagsfræðingur var að senda frá sér bókina Eimreiðarelítan – spillingarsaga og það verður að segjast eins og er að maður er í hálfgerðu áfalli eftir lestur hennar. Þó var allt þetta kunnuglegt.

„Líklega hefur jafn fámennur hópur aldrei ráðið jafn miklu í jafn langan tíma í vestrænu lýðræðisríki,“ segir Þorvaldur. Og eftir lestur bókarinnar mætti botna þessa setningu með því að segja að sjaldan hefur eins miklu verið klúðrað á eins skömmum tíma, og er þá vísað til hrunsins 2008. En áfram skal haldið, á sömu braut nema eitthvað mikið komi til.

Bókin byggir á B.A.- og meistaraprófsritgerðum Þorvaldar auk umfangsmiklum óbirtum trúnaðargögnum innan úr Landsbankanum. Þetta gæti allt eins verið hrollvekja. Þar greinir frá áformum frægustu valdaelítu vorra tíma um yfirráð; Eimreiðarelítan hljóp eftir baki Sjálfstæðisflokksins til áhrifa og Ísland varð eins og frumgerð tilrauna nýfrjálshyggjunnar. Þetta er saga um ris og fall því árið 2008 misheppnaðist tilraunin herfilega með hinu „svokallaða“ hruni. Þetta er auðvitað nokkuð sem kemur þeim sem vita vilja ekki á óvart en í bókinni setur Þorvaldur þetta allt í samhengi og rekur söguna.

Spurður segist Þorvaldur hafa gefið bókina út sjálfur. Hann sýndi einum útgefanda bókina, sá var eitthvað hikandi enda verið að fjalla um valdamikla menn. Þannig að hann ákvað að láta slag standa. Og sér varla eftir því. Fyrsta prentun, 500 einstök, eru að verða uppurin og Þorvaldur bíður nú eftir 2. prentun.

Ótrúlegar viðtökur

Þorvaldur vill ekki gera mikið úr því að sá forleggjari hafi verið hikandi á sínum tíma og hann sé nú að hjálpa til við dreifingu bókarinnar. „Það er kannski hreinlegast með bækur eins og þessa, þetta er auðvitað eldfimt efni og fjallar um valdamikla menn á sínum tíma og það eru þeir auðvitað enn.“

„Eymundsson á nú eitthvað ennþá en ég held að þetta sé uppurið annars staðar. Það eru menn að panta hjá mér og ég er í tómum vandræðum. Við erum að bíða eftir nýrri prentun.“

Bókin er pentuð í Odda, ekki í Kína eða Litháen og þess vegna er hún dýr. „Mjög fallegt verk hjá þeim, það verður að segjast eins og er.“

Og pantanir berast víða um heim. „Ég var að senda nýjasta eintakið til Ameríku. Þá er verið að panta hana í Hollandi, Danmörku … og menn hafa verið að panta þetta út um allt. Stefán Ólafsson prófessor hefur sagt bókina skyldulesningu og hún ætti að vera kennd í öllum skólum. Einhver sagðist hafa lesið bókina í einum rykk og svo framvegis. Maður heyrir slík komment út um allt. Ég er þakklátur fyrir það.“

Við erum að ræða um viðtökurnar sem hafa verið jákvæðar, nema reyndar var Eiríkur Bergmann stjórnmálaprófessor með einhvern lunta á sinni Facebook-síðu og greip Þorvaldur til þess að svara honum með aðsendri grein á Vísi.

„Já, mér fannst þetta sérkennilegt hjá prófessor í stjórnmálafræði. Þetta er á hans sérsviði. Ég gat ekki séð fyrir mér að prófessor í heimspeki myndi senda frá sér slíkan sleggjudóm. Snertir hann dálítið mikið, hans skrif óbeint og mér datt í hug að svara honum.“

Eimreiðarhópurinn mun engu svara

En Þorvaldur hefur ekki þungar áhyggjur af þessu. Hann nefnir til sögunnar umdeilda heimildamynd sem átti að fjalla um hrunið og var sýnd á RÚV. Hún sé gerólík bókinni. Og þetta er element sem varð meðal annars til þess að hvetja hann til verksins. Að það sé verið að teikna upp kolskakka mynd af því sem raunverulega gerðist. Meðal annars gagnvart útlendingum. Þetta er baráttan um hver skrifar söguna.

„Þarna var verið að birta mynd en skýringar sem eru alveg út í móa. Að það hafi verið einhverjir vondir útlendingar sem orsökuðu hrunið?!“

Þorvaldur segir að verið sé að fela pólitíska ábyrgð með slíku uppleggi. Og sú hafi í raun verið línan lengi. Á ýmsum vígstöðvum. Því vill hann mótmæla. Sín nálgun sé krítískari og dýpri.

„Já, ég þykist nú vera með hana.“

Eins og áður sagði hefur Þorvaldur unnið að þessu verki lengi, eiginlega frá því fyrir hrun. Í fyrstu hafði hann hugsað sér að gefa bókina út sem rafbók en svo fékk hann mikla hvatningu, ákvað að láta slag standa og koma þessu í almennilega útgáfu. „Ég lét slag standa. Ég vissi ekkert hvernig fólk tæki þessu en verð að segja eins og er að viðbrögðin hafa verið æðisleg. Endalaust jákvæð.“

Og hverjir skipuðu svo Eimreiðarhópinn? Það er rakið ítarlega í bókinni:

En hefurðu heyrt eitthvað í þeim sem tilheyra þessum hópi?

„Nei, ég get sagt það. Allir þeir sem þekktu efnið sögðu við mig; þeir svara aldrei. Ekki þessari bók. Það munu þeir ekki gera. Ekki fyrir jól. Það er taktíkin. Eitt það allra merkilegasta í þessu, og Jón Baldvin Hannibalsson (sem skrifaði grein um bókina) kveikti á því, er að Kjartan Gunnarsson er köngulóin í þessum vef öllum. Jafnvel meiri en Davíð Oddsson og ég vitna í Stefán Ólafsson með það. Hann hefur aldrei komið fram og þurft að svara neinu almennilega.“

Kjartan í miðju köngulóarvefsins

Kjartan þurfti reyndar að bera vitni fyrir rétti og segist Þorvaldur hafa verið einn fárra sem varð vitni af því.

„Þar viðurkenndi hann að vita af eign Landsbankans á aflandseyjum, hlutabréfaeign. Það er góður vitnisburður, en hann hefur aldrei þurft að svara spurningum sem út af standa. Sem snúa að gróflega falsaðri eiginfjárstöðu bankans í svo langan tíma. Hann er lykilmaður allan tímann. Yfirmaður endurskoðunarnefndar bankans, yfirumsjónarmaður falsaða bókhaldsins en aldrei þurft að koma fram. Ekki fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis, sem er lygilegt. Það er eitt, hvernig menn komast upp með að þegja og þagga niður með því að svara engu. Þetta er makalaus saga. Svo koma einhverjir aðrir að og búa til allt aðra sögu.“

Þorvaldur nefnir enn Baráttuna um Ísland sem RÚV sýndi sem dæmi um hvítþvott. Þar hefði mátt spyrja spurninga. En Bosse Lindquist, sænskur rannsóknarblaðamaður, hefur sagt nafn sitt og orðspor misnotað af framleiðendum heimildarmyndarinnar Baráttan um Ísland. 

Hann hafi sagt sig frá leikstjórn myndarinnar löngu fyrir útgáfu hennar en samt sem áður verið titlaður leikstjóri hennar.

„Ég vil fá sögu þar sem þeir sem voru í innsta hring svara lykilspurningum en það hefur ekki enn fengist í gegn.“

Þorvaldur skrifaði ritgerðina hjá Stefáni Ólafssyni og ber hann honum vel söguna, Stefán hafi kveikt á öllu sem hann var að gera. Þorvaldur var farinn að rannsaka spillingu fyrir hrunið.

„Ég skrifaði BA-ritgerð um spillingu 2006 og var þá kominn á sporið. Ég var búinn að tala við Sverri Hermannsson bankastjóra Landsbankans sem hafði sagt mér að eiginfjárstaða bankans væri fölsuð! Það var formlegt viðtal við hann fyrir hrun. Það viðtal var opinberun. Ég var búinn að reyna að halda þess að fólki fyrir hrun, að hlutirnir væru ekki í lagi.“

Af hverju sagði enginn neitt?

Góðærið var lengstum svarið við svo mörgu, eiginlega öllu. Gagnrýni var barin niður. Steingrímur J. Sigfússon fór í ræðupúlt þingsins og vildi spyrja út í stöðu mála en var rekinn þaðan eins og hundur af reiðum og orðsnjöllum forsætisráðherra, Davíð Oddssyni sem spurði hvort hann ætlaði virkilega að bera ábyrgð á því að tala góðærið niður? Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor og helsti áróðursmeistari Eimreiðarhópsins hafði eitt sinn sagt efnislega að Davíð gæti ekki haft rangt fyrir sér. Sá var konsensusinn.

Þorvaldur segir þetta allt á eina leið, eftirlitskerfi á Íslandi hafi verið hönnuð til að bregðast.vísir/vilhelm

„Og allt var þetta á eina leið,“ segir Þorvaldur. Hann segir þá mynd sem haldið hefur verið að útlendingum afskaplega brenglaða.

Þegar horft er á þetta í baksýnisspeglinum er þetta allt svo banalt. Eimreiðarhópurinn kemur og hrifsar til sín völdin, strákaklíka sem minnir helst á Svörtu höndina eða eitthvað álíka? Þetta er eitthvað svo … barnalegt, bjánalegt og ófyrirleitið í senn?

„Já, þetta virkar allt sláandi en dálítið augljóst þegar maður sér gögnin í samhengi. Sérstaklega í lokin en þá ganga þeir af göflunum. Og sláandi í þarna í lokin, hvað leiðtoginn viðurkennir í raun.“

Ekkert kemur þó á óvart.

„Ég held að menn skilji ekki fyrr en þeir fá stóra samhengið. Þegar þeir sjá valdstrúktúrinn og hve skipulega er sótt í auð og völd. Og hvernig unnið er skipulega á öllum valdsviðum.“

Vinstri flokkarnir hræddir og ósjálfstæðir

Þetta snýst meðal annars um að skrá söguna, sagt er að sigurvegarinn skrái söguna og hver er sigurvegarinn?

„Það er góð spurning. Þessi elíta vann í raun stórsigur. Gjörbreytti samfélaginu fyrir þá valdamestu en ekki svo mjög fyrir aðra. Síðan gerist það að Vinstri grænir samþykktu einkavæðingu Íslandsbanka. Róttækari hluti vinstri manna. Það var risasigur og sýnir hver sigraði hugmyndabaráttuna.“

Þau hanga á völdum en reyndar virðist manni að það sé búið að móta kerfið þannig að þessi öfl halda völdum nánast burtséð frá því hvernig kosningar fara. Það er ekki lýðræði?

„Nei. Og þetta sýnir völd Sjálfstæðisflokksins. Vinstri flokkarnir eru hræddir og ósjálfstæðir. Þeir vinna ekki valdpraktískt. Þeir eru flæktir í frjálslyndar hugmyndir um verkalýðshreyfingu, stúdentapólitík og fjölmiðla og fleira og skilja ekki við hvað er að fást. Eða skildu ekki. Það hefur orðið vakning síðustu ár. Verkalýðshreyfingin er byrjuð að urra og þá vakna menn aðeins.“

Ísland í spillingarsérflokki

Lokaorð bókarinnar eru: „Vonandi hjálpar þetta rit einhverjum í baráttunni við spillinguna sem hefur verið svo djúpstæð og illviðráðanleg á Íslandi um langa hríð. Kannski eflist andóf almennings gegn „frjálsa gróðabrallinu“. Draumur væri ef tækist með þessum skrifum að bæta samfélagið. Þá er tilganginum náð.“ Þú ert sem sagt ekki alveg vonlaus um að það takist að sporna við fæti gegn þessu?

„Nei, alls ekki. Það er von. En fyrst þurfa menn að skilja valdkerfið, valdasóknina og hvernig valdið er misnotað í sókn í auð og völd. 

Að sögn Þorvaldar var skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis meingölluð, þó hún hafi verið mikilvægt innlegg í að rannsaka spillingu á Íslandi.vísir/vilhelm

Uppspretta einokunarauðsins og völdin yfir fjármagninu beinu og óbeinu. Einnig hættuna. Stóra augnablikið er núna. Þegar bankarnir verða að fullu einkavæddir og krónan er á floti. Þá getur allt farið af stað með látum. Og stórhættulegar aðstæður myndast.“

Þú talar um að Ísland hafi verið í sérflokki, spillingin hér hafi verið meiri en nokkurs staðar, brotin grófari, augljós bæði lagalegar og siðferðilegar? Eftirlitskerfi hannað til að bregðast? Þetta eru stór orð.

Já, fjármálaspillingin, pólitíska fjármálaspillingin kannski. Hún sló öll vestræn met. Við megum samt ekki gleyma því að við eru laus við illvígustu spillingu, tengdum ofbeldi herja og skipulögðum glæpasamtökum. En á þessu afmarkaða sviði klassískrar fjármálastarfsemi voru öll met slegin. Allt fjármálakerfið gegnsýrt spillingu meira og minna. Nær allar fjármálastofnanir voru tæmdar að innan.“

Brengluð nýfrjálshyggja

Það er eins og Ísland hafi verið einhvers konar tilraunaeldhús nýfrjálshyggju á sterum?

„Jú. En algjöra sérstaðan var sú að Seðlabankinn var líka tæmdur að innan. Samt var sköttum á almenning haldið háum. Sem er ekki nýfrjálshyggja samkvæmt hugmyndafræðinni, heldur frekar eins og réttlæting fyrir öfgafullri hagsmunagæslu. Eitt vandamálið við nýfrjálshyggju er hvaða það er stutt skref frá henni yfir í spillinguna.“

Sjálfstæðisflokkurinn virðist annar í orði en á borði. Því hefur verið haldið fram að hann sé sá kommúnistaflokkur sem lengst hafi náð á heimsvísu? Hér eru engar aðstæður fyrir hreina markaðshyggju. Við dæmd fákeppni á svo mörgum sviðum og þá er náttúrlega örstutt spor yfir í gerspillingu; ólígarkí og pilsfaldakapítalisma. Votur draumur stuttbuxnadeildarinnar er að verða forstjóri í ríkisfyrirtæki?

„Já, mjög sérstakt,“ segir Þorvaldur og hlær við þessari hugmynd. 

Þorvaldur segir að líklega hafi það ekki gerst að jafn fámennur hópur hafi ráðið jafn miklu í jafn langan tíma í vestrænu lýðræðisríki og Eimreiðarhópurinn.vísir/vilhelm

„En að því er virðist vegna þjóðrækni, hárra einstaklingsskatta og mikilla ríkisumsvifa halda sumir því fram að þetta sé nýfrjálshyggja í framkvæmd. Og það blasti við alls staðar þegar ég fór að rannsaka spillinguna. Allir alls staðar að hitta félaga sína fyrir. Þeir komu að úr öllum áttum á markaðnum. Og þess vegna var það svo mikið áfall að sjá einkavæðingu Íslandsbanka nú. Að þeir hafi fengið að koma að útboðinu sjálfur eins og menn hafi ekkert lært af Hruninu. Nátengdir aðilar sjá um útboðslýsingar fyrir skuldabréfaútgáfu og hlutabréf.“

Lengi haft áhuga á spillingu

Þetta er lapsus í kenningunni en er ekki fæðin meginvandinn? Að þegar þú ert komin í þá stöðu að geta raðað þínum mönnum á alla pósta þá sé mannætufylgið orðið það mikið sem dugar, sér í lagi þegar kosningakerfið er eins og það er?

„Já, einmitt. Ég held að það sé einmitt þannig og þessi elíta var mögnuð í að koma mönnum fyrir á réttum stöðum. Formaður útvarpsréttarnefndar hljómar sakleysislega en hafði mikil völd. Þeir gengu inn í magnað valdakerfi, það er rétt og fengu ótrúlega hagstæðar aðstæður. SÍS hrundi, einstakt 90 efnahagsástand og vinstrið í upplausn. Svo var nýfrjálshyggjan að sigra heiminn og USA að byggja upp fordæmalaust áróðursnet.“

Þannig að allt leggst á eitt?

„Já, nákvæmlega allt. En þeir klúðruðu samt öllu.“

En hvað kemur til að þú ferð að fá þennan áhuga á spillingu sem fyrirbæri, löngu fyrir hrun? Hún var ekki til samkvæmt Transparency International?

„Ég hef allt haft áhuga á henni. Ég hafði þá kenningu að leyndardómar kapítalismans væru tveir: Spillingin og máttur áróðursvaldsins. En til að skilja kapítalismann þurfi maður sem sagt að skilja þetta tvennt. Næst rannsaka ég áróðurinn.“

Þorvaldur segist hafa afhjúpað rannsóknir Transparency International í B.A.ritgerð sinni.

„Já. Meingallaður listi og þeir vita af því sjálfir. Bara þeirra helsta söluvara. Ég er sjálfur í samtökunum sem eru góð að mörgu öðru leyti.

En áróður er nokkuð sem getur reynst erfitt að ná taki á?

„Já, en magnað fyrirbæri. Þjóðernishreinsunin á Gasa nú er ótrúlega afhjúpandi.“

Hefur engar áhyggjur af ofsóknum Eimreiðarhópsins

Nú má búast við því að bók þín verði afgreidd með þögninni, nema Hannes stingi niður penna og svo verður þú sakaður um að vera geðbilaður. Ertu búinn að ákveða hvernig þú bregst við því?

„Haha! Já hef engar áhyggjur af því. Bókin hefur fengið svo góð viðbrögð hjá svo mörgum að skilaboðin lifa og rannsóknin kveikir hugmyndir og lífgar baráttuna fyrir betra samfélagi.“

Þorvaldur segir að nú sé runnin upp ögurstund. Þó Eimreiðarhópurinn hafi svo gott sem lokið sínu erindi sé baráttunni um Ísland hvergi nærri lokið.vísir/vilhelm

Þorvaldur starfar nú sem stendur hjá ERA viðskiptaþjónustu við svona allt mögulegt. Hann segist ekki óttast hefndaraðgerðir af hálfu hópsins?

Nei, ekkert sérstaklega. Lögfróðir menn hafa lesið handritið. Þetta á allt að vera svo vel undirbyggt að hætturnar eru ekki miklar. Og eins og áður sagði, þá er ekkert sem kemur manni beinlínis á óvart.“

En það sem ég velti fyrir mér er hvers vegna stór hópur Íslendinga ýmist lokar augunum fyrir þessu eða afneitar?

„Það er eiginlega magnað. Því þarna blasir stórspillingin við út um allt. Og upphæðirnar sem hlutfall af landsframleiðslu brjálæðislegar.“

Lifum á viðsjárverðum tímum

Og nú erum við á ögurstundu, við erum uppi á sögulegum tímum. Fellur þetta allt í sama farið eða verður einhver breyting?

„Það er risaspurningin. Þegar allt fjármálakerfið verður einkavætt, andlit Kaupþings stýrir Seðlabanka Íslands og krónuleikfangið á floti, þá er voðinn vís. Hvað hindrar leikinn með krónuna? Ný vaxtamunarviðskipti? Eða tæmingu Seðlalanka Íslands? Erlendu lánin, undanlit eftirlitsins. Þetta getur svo auðveldlega farið af stað aftur.“

Jú.

„Það var aldrei tekið á Seðlabankanum. Aðgengi að upplýsingum er hörmung. Rannsókn var aldrei gerð. Ég reyndi að spyrjast fyrir um þetta vegna þess að Davíð sagðist ekki hafa leyfi til að kíkja í bókhald bankanna. Hvort lögfræðisvið Seðlabanka Íslands hefði gefið álit, en ég fékk ekkert svar. Hundruð milljarða undir og norrænir seðlabankastjórar áttu ekki orð. Svo sjálfsagt að þurfti ekki einu sinni lög. Við verðum að opna fyrir aðhald blaðamanna og stjórnarandstöðu?“

Þorvaldur segir stöðuna eins og hún er stórhættulega og Seðlabankinn geti auðveldlega rústað hagkerfinu. Ég geri ekki ráð fyrir því að þú kjósir xD?

„Haha, nei. Einhver sem las bókina sagði að hann gæti ekki skilið hvernig nokkur maður gæti kosið xD eftir að hafa lesið bókina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.