Skoðun

Við erum hér og vertu með

Guðmundur Sigbergsson, Guðný Nielsen, Íris Ólafsdóttir, Ívar Kristinn Jasonarson, Anna Ingvarsdóttir og Haukur Logi Jóhannsson skrifa

Umhverfis- og loftslagsmál eru í brennidepli og við verðum öll vör við ægimátt náttúruaflanna sem eru sífellt að verða sýnilegri. Það sem má þó ekki gleymast eru þær aðgerðir sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið og loftslagsbreytingar. Við upplifum kannski ákveðin vanmátt þegar við erum að kynna okkur viðfangsefni loftslagsbreytinga eða annarra umhverfismála. Þau eru oft flókin og krefjast skilnings til þess að mynda okkur upplýsta afstöðu eða skoðun. Þekking á því sem er að gerast í umhverfinu okkar er mögulega ekki eins mikil og við myndum vilja, á það bæði við um einstaklinga og fyrirtæki, sem hafa bein eða óbein áhrif á umhverfi, náttúru og loftslag. Við treystum því oft á aðila sem “eiga að” þekkja betur viðfangsefnið, til þess að taka ákvarðanir fyrir okkur. En er það rétta leiðin?

Að taka þátt í að móta stefnu og strauma eða leggja sitt af mörkum krefst þess ekki að full þekking á viðfangsefninu sé til staðar. Þvert á móti er ekkert því til fyrirstöðu að maður sé pínu grænn þegar kemur að þessu. Að blanda saman sérfræðingum og öðrum sem hafa minni þekkingu á viðfangsefninu, en hafa samt hagsmuna að gæta, er aðferðafræði staðlagerðar. Það tryggir líka frekari notkun staðla og staðlaðra aðgerða þegar kemur að þessum málaflokki.

Nýtt fagstaðlaráð stofnað fyrir umhverfis- og loftslagsmálefni

Með því að fylgja stöðluðu verklagi sem þróað hefur verið af fagsérfræðingum tryggir þú að það liggja sammæli um bestu mögulegu útkomuna. Að fylgja stöðlum felst í að byggja á verklagi sem fagaðilar úr öllum geirum hafa sammælst um að sé “bestu starfsvenjur”. Staðlar eru verkfæri til þess að nota til þess að stuðla að trausti og að einstaklingar, fyrirtæki og opinberir aðilar treysti að aðgerðir séu í samræmi við “bestu starfsvenjur”.

Ólíkt reglu- og lagasetningu þá er staðlagerð byggð á mun víðtækari samráði og sérfræðiþekkingu á viðkomandi sviði.

Staðlaráð Íslands/Íslenskir staðlar hefur um áratuga skeið verið vettvangur stöðlunar á Íslandi og hefur lögformlegt gildi sem slíkur. Innan raða þess hafa starfað nokkur fagstaðlaráð á tilteknum fagsviðum (t.d. byggingar, rafmagn og upplýsingatækni). Nýverið var formlega stofnað til fagstaðlaráðs í umhverfis- og loftslagsmálum (FUM) sem mun sinna stöðlun og staðlatengdri vinnu á því fagsviði. Fagstaðlaráð er opin vettvangur og öllum frjálst að gerast aðilar að því og taka virkan þátt í mótun umhverfistengdra staðla hér á landi. Hvorki er krafist þess að aðilar hafi víðtæka þekkingu á fagsviðinu né reynslu af staðlagerð. Sú þekking mun hinsvegar aukast með þátttöku og fyrirtæki eða stofnanir munu hafa mikinn hag af í framtíðinni.

Hlutverk og tilgangur

Meginhlutverk þessa nýja fagstaðlaráðs er skýrt, að knýja fram nýsköpun og stöðlun á sviði umhverfismála, sjálfbærra starfshátta og aðgerða í loftslagsmálum. Við stefnum að því að nýta sérþekkingu og metnað Íslendinga til að nota alþjóðleg, viðurkennd og þekkt viðmið ásamt því að þróa nýja staðla og leiðbeiningar, byggt á bestu mögulegu þekkingu, sem munu leggja grunn að grænna samfélagi með orkuskiptum, vistvænum samgöngum, tækni o.fl.

Tilgangurinn er svo á hinn bóginn sá að gera hagsmunaaðilum á Íslandi kleift að taka þátt í staðlagerð og leggja sín vog á lóðarskálarnar við að tryggja að starfsemi fyrirtækja og stofnana sé í samræmi við umhverfislöggjöf, sé sjálfbær og að áhrif þeirra á umhverfi og loftslags séu lítil eða engin. Að það sé ákveðið samræmi í því sem við gerum til að hægt sé að mæla og bera saman árangurinn sem hlýst af staðlagerð og notkun staðla.

Tækifæri og áskoranir

Það er flest öllum ljóst að áskoranir í umhverfis- og loftslagsmálum eru af mörgum toga og verða ekki afgreiddar með einhverjum auðveldum hætti. Þær eru líka mismunandi eftir því hvort við erum að tala um umhverfismál eða loftslagsmál. Þó þetta tvennt sé nátengt er mikilvægt að greina þarna á milli svo ekki verði um villst hvað sé verið að gera og fyrir hvað. Loftslagsmál séu með ólíkar áskoranir en önnur umhverfismál og er þá samt mikilvægt horfa heildrænt á málaflokkinn umhverfismál í stað þess að horfa á þetta í einhverju sílóum, enda tengist þetta allt á einhvern hátt. Það er t.d. mikilvægt að árangur í loftslagsmálum hafi ekki neikvæð áhrif á aðra umhverfisþætti. Að sama skapi þá felast í þessu tækifæri til að leggja sitt að mörkum og vera leiðandi á sínu sviði þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum.

Tækifærin fyrir þá sem hafa hug á að vera með eru þó nokkur. Ekki er það eingöngu tækifærið til að taka þátt heldur einnig aðgangur að sérfræðingum á þessu sviði, að vera leiðandi á þessu sviði eða geta starfað náið með alþjóðlegum aðilum. Tækifærin eru af mörgum toga en grunnurinn að þátttöku verður ávallt sá, að móta nýjar hugmyndir og áherslur samkvæmt þörfum umhverfis og samfélags.

FUM er komið til að vera og við erum hér til þess að aðstoða og vera virkir þátttakendur í að tækla loftslagsvána ásamt ótal öðrum áskorunum tengdum umhverfismálum. Fyrirtæki eru að gera ýmislegt en það getur og þarf að ganga hraðar fyrir sig. Við getum verið sá stökkpallur sem að umhverfis- og loftslagsmál þurfa svo á að halda.

Vertu með okkur í þessari vegferð og leggðu þín lóð á vogarskálarnar.

Höfundar eru stjórn Fagstaðlaráðs í umhverfis- og loftslagsmálum:

  • Guðmundur Sigbergsson, formaður – Stofnandi International Carbon Registry
  • Guðný Nielsen – Stofnandi SoGreen
  • Íris Ólafsdóttir – Stofnandi Orb
  • Ívar Kristinn Jasonarson – Sérfræðingur hjá Landsvirkjun
  • Anna Ingvarsdóttir – Verkfræðingur hjá Verkís
  • Haukur Logi Jóhannsson, ritari – Verkefnastjóri hjá Íslenskir staðlar



Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×