Samira kom fyrst hingað til lands árið 2015 og hefur leikið með Víkingi Ólafsvík, Aftureldingu/Fram og Sindra auk ÍA hér á landi. Hún var hluti af liði ÍA sem fór upp úr 2 deild kvenna í sumar og þjálfar yngri flokka hjá liðinu samhliða því. Hver jól fer hún heim til Gana og hefur á hverju ári tekið eins mikið og hún getur með sér heim af fótboltabúnaði.
„Fyrir nokkrum árum þegar ég ákvað að fara til Íslands, líklega fyrir sjö árum, fór ég heim eftir leiktímabilið og gaf fólki heima það sem ég hafði fengið hér. Seinna fór ég að biðja liðsfélagana um aðstoð. Nú í ár kom ég skilaboðum á framfæri hjá fólki hér hvort áhugi væri á að styrkja þetta málefni. Þetta hefur staðið yfir í nokkur ár.“ segir Samira.
Fólk að fá fótboltaskó í fyrsta sinn
En af hverju er Samira að þessu?
„Fólk hefur ekki efni á að kaupa slíkar vörur. Knattspyrnuvörur eru mjög dýrar um allan heim. Þetta skiptir því miklu máli. Ég átti sjálf ekki fótboltaskó þegar ég var að alast upp. Ég veit að það er fólk þarna úti sem hefur aldrei getað klæðst fótboltaskóm. Þetta er mjög hæfileikaríkt fólk og þetta skiptir það öllu máli.“
„Ég er afskaplega þakklát svo ekki sé meira sagt.“ segir Samira.
Þakkar hjálpsemi Íslendinga og Skagafólks
Hún er einmitt afar þakklát fyrir undirtektirnar frá Íslendingum og þakkar samfélaginu á Skaganum sérstaklega fyrir.
„Þetta fer mjög langt með að hjálpa fólkinu heima. Ég er því mjög þakklát. Áhuginn eykst í sífellu og ég kann að meta alla þá sem hafa viljað hjálpa liðsfélögum mínum. Íslendingar víða um land, ekki síst frá Akranesi, hafa verið afskaplega hjálplegir í þessu sambandi.“ segir Samira.
Jólasveinninn í Gana
Hvað þýðingu hefur þetta fyrir alla þessa krakka í Gana að fá allan þennan búnað?
„Þetta skiptir þau öllu máli. Þetta eru hæfileikaríkir krakkar. Ég kynntist þessu í mínum uppvexti og þegar ég var að vinna mig upp. En fótboltatreyjur hafa ótrúlega mikið að segja. Íþróttir almennt stuðla að því að færa ungmenni saman svo þau geti stundað félagslíf saman og ræktað hæfileika sína til að ná langt. Verkefni sem þetta skiptir þessa krakka mjög miklu.“

„Þau verða svo glöð þegar ég kem heim og gef þeim þennan búnað. Þetta skiptir þessa ungu krakka heima afar miklu máli.“
Þú ert þá eins og jólasveinninn ár hvert?
„Já, næstum því. segir Samira og hlær.“
Samira heldur út til Gana 1. desember næst komandi en tekur öllum fótboltabúnaði fagnandi. Viljiru styðja við söfnun hennar er hægt að hafa samband á samysoca18@gmail.com.
Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.