Fótbolti

Leik­menn E­ver­ton láta ekki deigan síga þrátt fyrir stiga­missi

Siggeir Ævarsson skrifar
Sean Dyche er litríkur karakter, svo ekki sé fastar að orði kveðið
Sean Dyche er litríkur karakter, svo ekki sé fastar að orði kveðið Vísir/Getty

Sean Dyche, knattspyrnustjóri Everton, segir að leikmenn hans séu ekki af baki dottnir þrátt fyrir að tíu stig hafi verið dæmd af liðinu og þetta mál muni einfaldlega blása bæði leikmönnum og aðdáendum eldmóð í brjóst.

Everton hafa verið á góðri siglingu undanfarið og unnið sex af níu síðustu leikjum í öllum keppnum. Liðið var komið í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar áður en stigin voru dregin af því og situr nú í 19. sæti með fjögur stig.

Dyche segir að leikmenn liðsins hafi brugðist hratt við í spjallhópi þeirra á WhatsApp og þeir líti einfaldlega á þetta sem eina áskorun enn sem þeir ætli að yfirstíga eins og aðrar. Sjálfur sagði Dyche í samtali við Guardian að honum hafi aldrei skort sjálfstraust sem knattspyrnustjóri og á því sé engin breyting núna.

„Mig hefur aldrei skort sjálfstraust og trú á eigin hæfileika, trú á hæfileika þjálfarateymis míns eða leikmanna. Frá því að ég kom hingað hefur mig aldrei skort sjálfstraust og ef við tölum bara hreint út þá höfum við gengið í gegnum ansi erfiða tíma. En þetta snýst ekki bara um sjálfstraust. Þú verður að vinna leiki og þetta er bara enn ein stór áskorun.“

Everton tekur á móti Manchester United á morgun og er það fyrsti leikur liðsins eftir að dómurinn féll. Stuðningsmenn liðsins hafa skipulagt mótmæli fyrir leikinn en Everton hefur áfrýjað dómnum og er ekki útséð með hvort stigin tíu eru endanlega glötuð eða ekki.


Tengdar fréttir

Tíu stig dregin af Everton

Tíu stig hafa verið dregin af Everton í ensku úrvalsdeildinni fyrir brot á reglum ensku úrvalsdeildarinnar um hagnað og sjálfbærni í rekstri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×