Enski boltinn

Segir slæma dóm­gæslu hafa á­hrif á orð­spor og lífs­viður­væri fólks

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hwang Hee-Chan og Gary O'Neil voru ekki upplitsdjarfir eftir að Wolves tapaði fyrir Fulham.
Hwang Hee-Chan og Gary O'Neil voru ekki upplitsdjarfir eftir að Wolves tapaði fyrir Fulham. getty/Mike Hewitt

Knattspyrnustjóri Wolves, Gary O'Neil, var enn og aftur ósáttur við dómgæsluna eftir leik Úlfanna gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Fulham vann leikinn, 3-2. Willian skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Alls voru þrjú víti dæmd í leiknum; Fulham fékk tvö en Wolves eitt. 

Að sögn O'Neils viðurkenndi Michael Salisbury, dómari leiksins, að fyrra vítið sem Fulham fékk hafi verið óréttmætt og honum fannst fjórar stórar ákvarðanir falla gegn sínu liði

„Kannski gerði kvöldið í kvöld mig loks afhuga VAR,“ sagði O'Neil eftir leikinn á Craven Cottage.

„Áhrifin sem þetta hefur á orðspor mitt og félagið og á lífsviðurværi fólks eru mikil. Við ættum að geta talað um leikinn en ekki dómaraákvarðanir en því miður getum við það ekki. Þetta er mjög flókið mál. Ég hef alltaf verið fylgjandi VAR en það veldur vandræðum núna. Ég held að VAR hafi kostað okkur í dag.“

O'Neil fannst að Carlos Vinícius hefði átt að vera rekinn út af fyrir að skalla Max Kilman og að Tim Ream hefði átt að fá sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir að brjóta á Hwang Hee-chan þegar Úlfarnir fengu sitt víti.

Wolves er í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en Fulham því fjórtánda. Bæði lið eru með fimmtán stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×