Enski boltinn

Góð inn­koma Arnórs þegar Black­burn lagði læri­sveina Roon­ey

Smári Jökull Jónsson skrifar
Arnór fagnar hér öðru marka Sammie Szmodics í kvöld.
Arnór fagnar hér öðru marka Sammie Szmodics í kvöld. Vísir/Getty

Arnór Sigurðsson kom inn sem varamaður í hálfleik þegar Blackburn vann góðan sigur í Championship-deildinni í knattspyrnu í kvöld. Innkoma Arnórs hafði góð áhrif á lið Blackburn.

Arnór hóf leikinn á varamannabekknum í kvöld þegar Blackburn tók á móti Birmingham. Fyrir leikinn var Blackburn um miðja deild en gat með sigri lyft sér upp um nokkur sæti í töflunni. 

Wayne Rooney tók við sem stjóri Birmingham fyrir skömmu og um síðustu helgi vann liðið sinn fyrsta leik undir hans stjórn. Liðið var rétt fyrir ofan fallsætin fyrir leikinn í kvöld.

Staðan í hálfleik var 0-0 en hlutirnir voru ekki lengi að gerast eftir að Arnór Sigurðsson kom inn á völlinn í hálfleik. Fjórtán mínútum síðar var staðan orðin 3-0 eftir tvö mörk Sammie Szmodics og eitt frá James Hill

Siriki Dembele minnkaði muninn í 3-1 skömmu síðar og síðan skoraði hann aftur ellefu mínútum fyrir leikslok og munurinn aðeins eitt mark.

Það voru hins vegar heimamenn í Blackburn sem innsigluðu sigurinn í uppbótartíma. Lokatölur 4-2 og Blackburn nær að lyfta sér upp í 7. sæti deildarinnar með sigrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×