Enski boltinn

Segir stjóra Tottenham gera fót­boltann að betri stað

Sindri Sverrisson skrifar
Ange Postecoglou hefur heillað marga í vetur með þeirri spilamennsku sem Tottenham hefur sýnt, en síðustu þrír leikir hafa hins vegar tapast.
Ange Postecoglou hefur heillað marga í vetur með þeirri spilamennsku sem Tottenham hefur sýnt, en síðustu þrír leikir hafa hins vegar tapast. EFE/ISABEL INFANTES

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hrósaði kollega sínum hjá Tottenham, Ange Postecoglou, fyrir stórleik liðanna í Manchester á sunnudaginn.

Guardiola sagði meðal annars að Postecoglou, sem tók við Tottenham í sumar, væri stjóri sem gerði fótboltann að „betri stað“ og að hann hefði fylgst með honum frá því að þeir mættust fyrst í Japan á sínum tíma.

Englandsmeistarar City eru stigi á eftir Arsenal í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar, og þremur stigum á undan Tottenham sem hefur tapað þremur leikjum í röð. Postecoglou á því ærið verkefni fyrir höndum við að snúa við genginu gegn einu albesta liði heims.

„Ég hef bara hitt hann einu sinni á undirbúningstímabili fyrir 3-4 árum, þegar við spiluðum í Japan við Yokohama,“ rifjaði Guardiola upp á blaðamannafundi í dag.

Pep Guardiola hefur gaman af því að horfa á Tottenham spila.EPA-EFE/PETER POWELL

„Ange var stjórinn og ég skoðaði nokkrar klippur fyrir leikinn. Þetta var leikur númer tvö á undirbúningstímabilinu og ég sagði „vá, þarna er eitthvað sem mér líkar“. Ég sagði leikmönnunum þá að þeir myndu mæta liði sem væri gott í návígjum, ákaft í uppspili og að það notaði markvörðinn í sínu spili,“ sagði Guardiola.

„Ég held að hann geri fótboltann að betri stað, fólk eins og Ange. Ég hef margoft sagt að ég er stjóri en ég er á sama tíma áhorfandi, og ég nýt þess í botn hvernig þeir spila. Hvernig þeir nálgast leikinn,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×