Þórir var tekinn tali eftir öruggan sigur Noregs á Austurríki í C-riðli heimsmeistaramótsins sem spilaður er í Stafangri í Noregi, líkt og D-riðill Íslands.
Noregur mætti Íslandi í aðdraganda heimsmeistaramótsins en Ísland tók þátt í æfingamótinu Posten Cup og þurfti að þola tíu marka tap, 31-21.
Aðspurður um vegferð íslenska liðsins segir Þórir:
„Ég vil bara segja að það er rosalega mikilvægt að þær séu á HM. Þetta er viðmiðun fyrir þær til að sjá hvar þær standa, bæði sem einstaklingar og sem lið. Fá svör, fara heim og vinna í því. Þær eiga alveg erindi hérna. Það hefur verið bæting og þróun síðustu árin. Þetta er allt að koma,“ segir Þórir og bætir við:
„Það þarf að finna út úr því hvar þarf að leggja inn mestu vinnuna og svo er þetta gluggi fyrir þessar stelpur til að sýna sig og kannski fá samning við góð lið í útlandi. Það er næsta skref líka. Það þarf að fá fleiri í góð lið í útlöndum til að landsliðið geti tekið næstu skref. Og svo vinna vel með þessar ungu stelpur sem eru heima og setja bestu þjálfarana á stelpurnar.“
Ummæli Þóris má sjá í spilaranum að ofan.