Skoðun

Orkugjöf í ný­sköpun – mikil­vægi Vísinda­sjóðs Orku­veitu Reykja­víkur

Hera Grímsdóttir skrifar

Í heimi þar sem loftslagsváin vofir yfir þurfum við að hugsa upp nýjar leiðir til sjálfbærni í orkumálum. Við hjá Orkuveitu Reykjavíkur erum viss um að besti orkugjafinn í þeirri leit er nýsköpun, auðlind sem er jafn mikilvæg og orkan sem við framleiðum. Það er ástæðan fyrir því að OR styður við nýsköpun með því að fjárfesta í rannsóknarverkefnum í gegnum Vísindasjóð OR, sem gengur undir nafninu VOR. Úthlutað var úr sjóðnum á dögunum og hlutu 30 rannsóknarverkefni styrki fyrir um 100 milljónir króna.

Nýjar hugmyndir nauðsynlegar

Markmið sjóðsins eru að styrkja rannsóknir og verkefni sem tengjast starfssviði fyrirtækisins með áherslu á þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem eru í forgangi hverju sinni í samræmi við stefnu fyrirtækisins. Við sem vinnum hjá Orkuveitunni störfum í grein sem einkennist af framförum í tækni og áskorunum tengdum umhverfismálum. Því er okkur nauðsynlegt að nýjar hugmyndir og ólík sjónarhorn fái að blómstra, VOR er okkar leið til þess að styðja við það og á sama tíma, leið til að fjárfesta í framtíðinni. Með því að styðja við vísindafólk, nýtum við okkur uppsprettu nýsköpunar sem getur leitt til framfara í orkuframleiðslu, dreifingu og jafnvel neyslu orkunnar.

Áhrif á samfélagið

Fjárfesting í rannsóknum er ekki aðeins gagnleg fyrir Orkuveituna, hún hefur víðtæk áhrif á bæði samfélag og efnahag. Framfarir í orkuframleiðslu geta leitt til skilvirkari nýtingar auðlinda, minni umhverfisáhrifa og sköpun nýrra atvinnutækifæra. Með því að fjármagna rannsóknarverkefni, erum við því ekki bara að móta framtíð orkunnar heldur einnig að leggja til framþróunar og velferðar samfélagsins alls.

Stuðningur til skapandi frumkvöðla

Styrkir eru einnig mikilvægir fyrir vísinda- og rannsóknafólkið sjálft og í mörgum tilvikum forsenda þess að hugmyndir þeirra geti orðið að veruleika. Með VOR-inu getum við veitt þessum skapandi frumkvöðlum það fjármagn og þann stuðning sem þeir þurfa til að blómstra og breyta orkuheiminum til betri vegar.

Fjárfesting til framtíðar

Við hjá Orkuveitunni trúum því að með því að hlúa að rannsóknum og vísindastarfi náum við árangri. Við viljum ekki einungis vera orkufyrirtæki, við viljum stuðla að nýsköpun og vera hvati til framfara. Með því að styðja við vísindin erum við ekki aðeins að fjárfesta í framtíð fyrirtækisins heldur einnig í framtíð samfélagsins.

Höfundur er framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitunni.




Skoðun

Sjá meira


×