Houston og Los Angeles mættust í úrslitaleik Vesturdeildarinnar í nótt og börðust um sæti í úrslitum MLS-deildarinnar.
Þorleifur hóf leik á varamannabekk Houston, en það var Ryan Hollingshead sem kom heimamönnum frá Los Angeles í forystu með marki á 44. mínútu og staðan var því 1-0 í hálfleik.
Þorleifur kom svo inn á sem varamaður á 77. mínútu, aðeins þremur mínútum áður en Franco Nicolas Escobar varð fyrir því óláni að setja knöttinn í eigið net og tryggja heimamönnum frá Los Angeles 2-0 sigur.
Los Angeles FC er því á leið í úrslit MLS-deildarinnar á kostnað Þorleifs og félaga í Houston Dynamo sem sitja eftir með sárt ennið. Los Angeles mætir Columbus Crew í úrslitaleik MLS-deildarinnar laugardaginn 9. desember.