Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Tíska er fjölbreytileg og mismunandi á marga vegu. Hún getur algjörlega farið eftir skapi, veðri, hæðum og lægðum. Ég elska týpur sem skera sig úr og þora að vera öðruvísi, ég sé það sem ákveðna tjáningu og list.
Ég myndi nú ekki kalla sjálfa mig svaka tískudívu en mér hefur alltaf fundist gaman að vera með smá öðruvísi stíl og vil ekki vera eins og allir aðrir.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Ég hugsa að uppáhalds flíkin mín sé eldgamall pallíettujakki af ömmu minni sem mér þykir afar vænt um. Ég er búin að eiga síðan ég var unglingur, lítið gengið í honum en aldrei tímt að losa mig við hann. Ég held að hann muni fylgja mér alla ævi.
Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Ég eyði ekki miklum tíma að hugsa í hverju ég ætla þegar ég fer út í daginn en þegar það er ákveðið tilefni þá pæli ég aðeins meira í því.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Stíllinn minn í þremur orðum er töffari, klassísk og rusl en ég elska líka að vera litrík.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Já ég myndi klárlega segja það. Maður er alltaf að þróast og prófa sig áfram með alls konar stíla í gegnum árin, sem betur fer segi ég nú bara. En ég er þakklát fyrir öll tímabilin hvert fyrir sig.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Innblásturinn er allt í kringum mann, á netmiðlum, í mínum nánasta hring og jafnvel hjá ókunnugu fólki sem maður labbar framhjá.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Nei, það er allt leyfilegt hér á bæ. Gerðu þitt!
Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Eftirminnilegasta flík sem ég hef klæðst er sennilega japanskt kimono sem pabbi minn sendi mér frá Japan. Með fylgdi VHS spóla um hvernig maður ætti að klæða sig í þessa múnderingu. Jafnvel þótt að manneskjan leiðbeindi mér skref fyrir skref hvernig ég átti að klæða mig í þetta tókst mér að gera það vitlaust.
Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Vertu öðruvísi, vertu sexí og ef þér líður vel þá lúkkarðu vel.

Hér má fylgjast með Írisi Lóu á samfélagsmiðlinum Instagram.